RÚV hefur brugðist lögbundinni skyldu sinni

Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður

Þorsteinn Sæmundsson:
„Mjög hefur skort á þátttöku fjölmiðla í að kynna orkupakkamálið með skipulögðum hætti þó ekki megi setja alla undir sama ljós. Einkum hefur ríkisfréttastofan brugðist hlutverki sínu. Það er m.a. eftirtektarvert að fyrsta umfjöllun ríkisfréttastofunnar um fjöldasamtökin Orkuna okkar sem andæft hefur OP3 misserum saman fór í loftið fyrir viku. Ein umfjöllun að sjálfsögðu, síðan ekki söguna meir. Það er í sjálfu sér athugunarefni að RUV bregðist þannig lýðræðislegri og lögmæltri skyldu sinni. Önnur spurning er til hvers við rekum slíkan fjölmiðil fyrir almannafé ef hann efnir ekki lögmæltar skyldur sínar. Samkvæmt nýlegri könnun eru tveir þriðju hlutar þjóðarinnar á móti OP3. Þrátt fyrir það eru þeir sem taka svari þessa meirihluta sakaðir um andlýðræðislega tilburði. Hér snýr eitthvað á haus.“

Nánar í Mbl. 27. ágúst 2019

Er Alþingi orðið vanhæft vegna RÚV?

Hildur Hermóðsdóttir bókmenntafræðingur

Hildur Hermóðsdóttir skrifar í Mbl:
„Í mikilvægum málum sem tekist er á um, er talað við áhrifamenn og talsmenn beggja eða allra sjónarmiða, dregin fram aðalatriði og leitast við að útskýra þau. Því miður sýnist mér þessu ekki þannig varið í fjölmiðlum okkar undanfarin misseri, jafnvel ekki í útvarpi allra landsmanna. Meðan allt logar í átökum um þriðja orkupakkann innan stjórnmálaflokka og í þjóðfélaginu öllu láta fréttamenn sér það í léttu rúmi liggja, eru ófeimnir við að draga aðeins fram sjónarmið annars aðilans og sleppa því oftast að birta fréttir af því sem er að gerast á hinum vængnum.“
— –
„Fylgjendur orkupakkans hafa greinilega mun greiðari aðgang að fréttastofum. Hvernig ná þeir slíku tangarhaldi á fjölmiðlum að þeir fái ekki að fjalla ærlega um málið og gefa þjóðinni tíma og tækifæri til að kynna sér allar hliðar þess? Hvað á þessi leikaraskapur að þýða? Hvar er lýðræðið statt ef fréttamenn láta bjóða sér slíkt vinnuumhverfi? „

Er Alþingi orðið vanhæft?

Samtökin Orkan okkar hafa margoft bent á þá lýðræðisskekkju, sem fram kemur í umfjöllun RÚV (Útvarpi allra landsmanna) um innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Hvernig skyldi hlutverk Ríkisútvarpsins vera skilgreint í lögum?

Skv. Lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu (lögum nr. 23 frá 20. mars 2013) skal Ríkisútvarpið sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að: 
    1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. 
    2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar. 
    3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða. 

Nú það staðreynd, að lýðræðislega kjörnir fulltrúar almennings á Alþingi hafa ekki tök á því hver og einn til að kafa mjög ítarlega í hvert einasta þingmál og tillögur. Þeir hljóta því, líkt og almenningur, að reiða sig á ýmis gögn m.a. “ víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu “ umfjöllun Ríkisútvarpsins, sem skv. lögum ber þá skyldu að flytja vandaða og hlutlausa umfjöllun um mikilvæg málefni sem eru til umræðu í þjóðfélaginu hverju sinni. Þetta á ekki síst við um málefni sem skipta þjóðarhag verulegu máli og sem mismunandi skoðanir eru uppi um.

Þá vaknar sú spurning hvort Ríkisútvarpið hafi farið að lögum í umfjöllun sinni um þriðja orkupakka ESB?
Ef ekki, hefur það haft áhrif á skoðanamyndun alþingismannanna okkar og þá í takt við þá umfjöllun?

Nánar í Mbl þ. 24. ágúst 2019

25.000 dreifildi farin út!

Dreifingin á einblöðungi Orkunnar okkar, með 10 góðum ástæðum til að segja NEI við orkupakkanum, hefur gengið ótrúlega vel í Reykjavík. Það er líka byrjað að dreifa honum víðar bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Við sögðum frá því að síðastliðinn þriðjudag voru 12.000 eintök komin í dreifingu. Nú þremur dögum síðar eru þau orðin 25.000. Kassi með 5.000 dreifildum er kominn norður til Akureyrar og er áætlað að dreifingin á þeim fari af stað síðar í dag.

3000 þúsund dreifildi sem bíða þess að komast í dreifingu

Dreifildin hafa aðallega verið sett í póstlúgur en einnig á bíla. Þeir sem hafa borið dreifinguna uppi eru 27 sjálfboðaliðar. Í Reykjavík hefur munað miklu um hjón sem ákváðu að verja borgarferð sinni til að leggja samtökunum lið með dreifingu. Þau eru meðal annars búin að bera út í öll Holtin. Það er hægt að smella hér og skoða lifandi skjal með yfirliti yfir hvar er búið að bera út.

Okkur vantar fleiri sjálfboðaliða til að bera út í Reykjavík. Við lýsum líka eftir fleirum sem eru tilbúnir til að dreifa í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og á Akureyri. Það vantar reyndar sjálfboðaliða miklu víðar um landið.

Ef þú getur lagt okkur lið við dreifinguna þá getur þú sótt um að ganga í Facebook-hópinn Orkan okkar: orkuliðar. Það er auðvitað ekki skilyrði að vera á Facebook til að taka þátt. Í slíkum tilvikum er hægt að senda okkur póst á tölvupóstfangið: orkanokkar@gmail.com

Fundurinn í Reykjanesbæ

Fjórir fulltrúar Orkunnar okkar fluttu erindi um orkupakkann á opnum fundi sem Miðflokkurinn boðaði til og haldinn var í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Sömu fulltrúar verða með framsögu á fundinum sem haldinn verður á Selfossi nú í kvöld. Nánari upplýsingar um hann með að því að smella hér.

Fulltrúar Orkunnar okkar eru: Frosti Sigurjónsson, Ingibjörg Sverrisdóttir, Styrmir Gunnarsson og Ögmundur Jónasson

Hægt var að horfa á fundinn í beinni á Facebook. Þegar þetta er skrifað höfðu hátt í 3.000 manns horft á á upptökuna.

Posted by Miðflokkurinn on Miðvikudagur, 21. ágúst 2019

Málsókn ESB gegn Belgíu beinir athyglinni að haldlausum fyrirvörum á Íslandi

Sigurður Páll Jónsson alþingismaður

Sigurður Páll Jónsson:
Síðan þriðji orkupakkinn var tekinn til umræðu á Alþingi hefur mikill tími farið í að ræða þann fyrirvara sem ríkisstjórnin segist ætla að setja á innleiðinguna. Með fyrirvaranum verða reglugerðir orkupakkans innleiddar en gildistöku hluta þeirra frestað, þ.e. þeirra sem gætu farið á svig við stjórnarskrána. Þótt það megi vissulega deila um hvort slíkur fyrirvari hafi eitthvert gildi þá má jafnframt benda á að innleiðingin er ekki eins og hún á að vera og því má búast við að Eftirlitsstofnun EFTA hafi eitthvað út á það að setja.
Í þessu samhengi er rétt að skoða nýlegar fréttir af þeirri málsókn sem á sér stað gegn stjórnvöldum í Belgíu. Ástæðan fyrir því að þessi málsókn er áhugaverð er sú að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins höfðar málið og hún gerir það sökum þess hvernig stjórnvöld þar í landi stóðu að innleiðingu þriðja orkupakkans. 

Lesa áfram „Málsókn ESB gegn Belgíu beinir athyglinni að haldlausum fyrirvörum á Íslandi“