Inga Sæland skrifar:
„Það er líka fráleitt að vera að réttlæta þessa innleiðingu þriðja orkupakkans með því að bera fyrir sig aukna neytendavernd. Ég bara spyr: „Vernda okkur fyrir hverju?“ Við búum við eitt öruggasta og ódýrasta raforkukerfi í heimi. Hverra hagsmuna ganga stjórnvöld sem vilja skáka þessum forréttindum íslenskra neytenda? Það er jú ekki margt sem íslenskur almenningur getur glaðst yfir að sé hagstæðara í varðlagningu hér á landi en í löndunum í kringum okkur. Við búum við verðtryggingu, okurvexti, himinhátt verð á húsnæðismarkaði ásamt okurverði á flestallri nauðsynjavöru. Eitt er þó víst, að raforkan stendur upp úr sem ein verðmætasta auðlind okkar og hana ber að vernda með öllum ráðum til allrar framtíðar.“
Nánar í Mbl þ. 24. apríl 2019
Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það…
Kári Stefánsson skrifar:
„Mín afstæðiskenning sem lýtur að verði á rafmagni er svona:
Frá sjónarhóli Landsvirkjunar sem sjálfstæðs fyrirtækis á að selja rafmagn eins dýrt og mögulegt er. Frá sjónarhóli íslenskrar þjóðar á Landsvirkjun að selja rafmagn eins ódýrt og hægt er. Landsvirkjun er ekki sjálfstætt fyrirtæki heldur eign þjóðarinnar. Hagsmunir þjóðarinnar eiga að ráða og það er ekkert afstætt við það.
Þegar maður veltir fyrir sér orkupakkanum þriðja í tengslum við hugmyndir um það hvernig orkan sem við virkjum úr íslenskri náttúru sé nýtt og mikilvægi hennar fyrir framtíð þjóðarinnar, þá held ég að við ættum láta hann vera þótt ekki sé nema vegna þeirra skilaboða sem samþykkt hans myndi senda börnum okkar og barnabörnum. En ef Alþingi samþykkir orkupakkann þriðja held ég að við lifum það svo sem af vegna þess að við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa þjóðarinnar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Austur vallar, þau afdrifaríku inni í hlöðnu steinhúsi sem blasir við Jóni Sigurðssyni, þau sem eru næstum takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni í öðrum húsum þar í nágrenninu.einnig.“
Nánar í Fréttablaðinu þ. 24. apríl 2019 bls. 14
Landsreglari ESB er ekki þjónn Íslendinga þótt þeir borgi honum launin.
Haraldur Ólafsson skrifar:
“ Í fyrrnefndri tilskipun (tilskipun ESB nr. 72/2009 í þriðja orkupakka ESB) er vaðið á súðum um hlutverk landsreglarans. Hann á „að gefa út bindandi ákvarðanir að því er varðar raforkufyrirtæki og að beita raforkufyrirtæki, sem hlíta ekki skuldbindingum sínum, skilvirkum viðurlögum“ en umfram allt „þurfa eftirlitsaðilar á sviði orku að geta tekið ákvarðanir í tengslum við öll viðeigandi mál er varða lög og reglur, og að vera óháðir hvers konar öðrum einka- eða almannahagsmunum“. Landsreglarinn er sem sagt ekki þjónn Íslendinga þótt þeir borgi honum launin, heldur þjónn hins evrópska reglukerfis. Þyki landsreglaranum landsmenn ekki nógu hlýðnir hefur hann skv. 37. kafla, lið 4d fyrrgreindrar tilskipunar heimild til að sekta fyrirtæki um allt að 10% af ársveltu. Það er drjúgur skildingur. „
Nánar á vefsíðu Stundarinnar
Opnar dyr eða ólæstar?
Ólafur Ísleifsson alþingismaður skrifar í Mbl:
“Kjarni málsins er einfaldur: Það ríkir óvissa um hvort við séum að opna dyr að orkuauðlindum þjóðarinnar sem seinna verður hugsanlega læðst inn um. Við erum að minnsta kosti að skilja dyrnar eftir ólæstar. Hver er munurinn?”
Hann segir ennfremur:
„Í álitsgerðinni (álitsgerð lögmannanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst) nefna höfundar að „möguleg lausn gæti falist í því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt en með lagalegum fyrirvara“ sem lýtur að hugsanlegum sæstreng. „Þessi lausn er þó ekki gallalaus,“ segja þeir í lokin.
Síðarnefnda lausnin er nú í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Um hana er fjallað í sjö og hálfri línu í 43 síðna áliti Friðriks og Stefáns Más. Fyrir Alþingi liggur engin álitsgerð um þessa lausn; hvort lögfræðilegi fyrirvarinn dugi til að vega upp á móti þjóðréttarlegum skuldbindingum sem fylgja samþykki við pakkann. Ekkert liggur fyrir um hverjir eru helstu gallar á þessari viðbótarlausn. Samt virðast stuðningsflokkar málsins á Alþingi tilbúnir að samþykkja orkupakkann sem felur í sér ákvörðunarvald erlendrar stofnunar sem tekur „a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar“.
Nánar í Mbl. þ. 23. apríl 2019
Þriðji orkupakkinn hefur ekki gildi fyrir Ísland
Eyjólfur Ármannsson lögmaður skrifar:
“Alþingi ber að hafna þingsályktunartillögunni og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki aðild að EES-samningnum enda í fullu samræmi við ákvæði hans.
Ótti við slíkt er hættulegur samstarfinu.
Stór hluti þriðja orkupakkans hefur ekki gildi fyrir Ísland…”
Hann segir ennfremur í greininni:
“Þetta yrði í fyrsta sinn í 25 ára sögu EES-samningsins sem hinn stjórnskipulegi fyrirvari væri nýttur og máli vísað aftur til nefndarinnar, enda í fyrsta sinn sem ætlunin er að færa helstu náttúruauðlind Íslands undir erlent eftirlit og regluverk innri raforkumarkaðar ESB sem landið er ekki hluti af.”
Nánar í Mbl 23. apríl 2019