Kastljós RÚV fjallaði um orkupakkann 13. nóvember 2018. Viðmælendur voru Guðni Jóhannesson orkumálastjóri sem sagði m.a. að orkupakkinn myndi ekki hafa áhrif á orkusölu hérlendis. Frosti Sigurjónsson f.v. þingmaður var spurður og svaraði í stuttu innleggi hvers vegna hann væri mótfallinn innleiðingu orkupakkans. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins sagði að ekki væri hægt að halda endalaust áfram með valdframsal. Höfnun hans myndi ekki marka endalok EES samningis. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður Samfylkingar vísaði til stöðu Norðmanna og hægt væri að standa með þeim. Sjá frétt rúv.is
Ráðuneytið leiðréttir fréttir af sæstreng
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu 13. nóvember 2018. „Ráðuneytið vill af gefnu tilefni koma því á framfæri, að það er ekki rétt sem sagt er í fréttum í Morgunblaðinu og á vefnum Mbl.is í dag, að fyrirtækið Atlantic SuperConnection hafi verið að skoða möguleika á lagningu sæstrengsins Ice-Link á milli Bretlands og Íslands, sem sé á verkefnalista Evrópusambandsins.
Lesa áfram „Ráðuneytið leiðréttir fréttir af sæstreng“„Sífellt fleirum líður eins og að Evrópusambandið beri ekki þá virðingu fyrir tveggja stoða kerfinu og okkur finnst það eiga að gera“
Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar á Alþingi 12. nóvember 2018 þar sem rætt var um þriðju orkutilskipun ESB. Í frétt mbl.is segir ennfremur „Rifjaði hún upp að samkvæmt EES-samningnum væri heimilt að neita upptöku einstakra lagagerða frá Evrópusambandsins en hins vegar hefði slíku neitunarvaldi aldrei verið beitt í raun. Fyrir vikið lægi ekki nákvæmlega fyrir hvaða afleiðingar það hefði. Þórdís sagði hins vegar að sjálfsagt væri að ræða það hvernig EES-samningurinn væri að þróast og hvort rétt væri að stíga niður fæti á einhverjum tímapunkti, staldra við og spyrja hvort þróunin væri á þann hátt að Íslendingar væru sáttir við hana.“ Hér má lesa frétt mbl.is. og hér má horfa á umræðuna á Alþingi.
Bítið: Að samþykkja orkupakka 3 er varhugavert
Elías Bjarni Elíasson verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum og fv. starfsmaður Landsvirkjunar ræddi við Bítið á Bylgjunni 12. nóvember 2018. Elías svaraði spurningum þáttastjórnenda um þriðja orkupakkann og hugsanleg áhrif af innleiðingu hans hér. Meðal annars kom fram að Íslendingar hafa engann hag af innleiðingu orkupakkans, en verði pakkinn innleiddur munu áhrif ESB í orkumálefnum Íslands aukast og hættara við að raforka yrði flutt út um sæstreng til ESB í framtíðinni. Hér má hlusta á viðtalið.
Kjördæmaþing Framsóknarflokksins hafnar þriðja orkupakkanum
Í forsíðufrétt Morgunblaðsins 12. nóvember 2018 er sagt frá því að framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi hafi á kjördæmaþingi samþykkt að hafna þriðja orkupakkanum. Áréttað er í ályktuninni að ekki verði tekið upp í EES samninginn ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Í sömu frétt er rætt við Lilju Alfreðsdóttur, varaformann Framsóknarflokksins sem segir „Þetta verður rætt á haustfundi miðstjórnar um næstu helgi. Flokksþing hefur ályktað gegn orkupakkanum og þetta er eitthvað sem okkar bakland vill fara gaumgæfilega yfir, enda rík ástæða til,“ Lilja segir jafnframt að það sé skýrt í hennar huga að Framsóknarflokkurinn taki ekki þátt í að samþykkja framsal fullveldis til stofnana sem Ísland eigi ekki aðild að. „Það þarf að tryggja að þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við tökum á okkur stangist ekki á við stjórnarskrána. Það skiptir flokksmenn okkar miklu máli og við tökum fullt tillit til þess.“