Jón Baldvin Hannibalsson:
„Hins vegar verða að teljast verulegar líkur á því, að ótímabær lögleiðing orkupakka 3 og ófyrirséðar og óhagstæðar afleiðingar, öndverðar íslenskum þjóðarhagsmunum, muni grafa undan trausti á og efla andstöðu með þjóðinni við EES-samninginn, eins og reynslan sýnir frá Noregi. Þegar af þeirri ástæðu er óráðlegt að flana að fyrirhugaðri löggjöf nú,“
Nánar á vefsíðu Mbl. 25. apríl 2019
Vegvísar og heilög vé
Ómar Ragnarsson skrifar:
„Hér á landi má sjá vegvísa fyrir vegferð okkar í orkumálum, sem hafa birst á síðustu fimm árum og vísa allir í sömu átt og þekktur erlendur blaðamaður með umhverfismál sem sérgrein orðaði við mig í forspá í Íslandsheimsókn um síðustu aldamót. Hann sagði við mig: „Eftir viðtöl mín við helstu áhrifamenn Íslands er niðurstaða mín sú að þið Íslendingar munið ekki linna látum fyrr en þið hafið virkjað allt vatnsafl og jarðvarmaafl landsins, hvern einasta læk og hvern einasta hver.“ Ég hrökk við, en vegvísarnir, sem birst hafa síðan, vísa of margir í sömu átt og þessi forspá til þess að hægt sé að yppta öxlum.“
Nánar í Fréttablaðinu þ. 25. apríl 2019
3. orkupakki ESB, kvótinn og umræðan
Grétar Mar Jónsson:
“Með innleiðingu 3. orkupakkans afsalar Ísland sér ákvörðunarvaldi yfir mestu náttúruauðlind sinni í hendur ESB og Ísland mun ekki hafa ákvörðunarvald um aðgang erlendra aðila að Íslandshluta raforkumarkaðarins. ESB-lög munu ráða, ekki íslensk,og fyrirvarar um annað munu ekki halda gegn ofurvaldi Brusselreglna. Sæstrengur mun lúta ESB-reglum. Stjórnvöld gæta ekki hagsmuna Íslands um helstu auðlind þjóðar- innar og hræðslan við Brusselvaldið og ímyndaðar afleiðingar rekur íslensk stjórnvöld áfram. Stjórnvöld hafa ekki bent Brussel á að líta á sjókort og hnattstöðu Íslands í málinu en skýla sér á bak við álit fræðimanna við þessa stórpólitísku ákvörðun. Af er sem áður var á tímum þroskastríða.”
Nánar í Fréttablaðinu þ. 25. apríl 2019
Flokkur fólksins segir NEI
Inga Sæland skrifar:
„Það er líka fráleitt að vera að réttlæta þessa innleiðingu þriðja orkupakkans með því að bera fyrir sig aukna neytendavernd. Ég bara spyr: „Vernda okkur fyrir hverju?“ Við búum við eitt öruggasta og ódýrasta raforkukerfi í heimi. Hverra hagsmuna ganga stjórnvöld sem vilja skáka þessum forréttindum íslenskra neytenda? Það er jú ekki margt sem íslenskur almenningur getur glaðst yfir að sé hagstæðara í varðlagningu hér á landi en í löndunum í kringum okkur. Við búum við verðtryggingu, okurvexti, himinhátt verð á húsnæðismarkaði ásamt okurverði á flestallri nauðsynjavöru. Eitt er þó víst, að raforkan stendur upp úr sem ein verðmætasta auðlind okkar og hana ber að vernda með öllum ráðum til allrar framtíðar.“
Nánar í Mbl þ. 24. apríl 2019
Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það…
Kári Stefánsson skrifar:
„Mín afstæðiskenning sem lýtur að verði á rafmagni er svona:
Frá sjónarhóli Landsvirkjunar sem sjálfstæðs fyrirtækis á að selja rafmagn eins dýrt og mögulegt er. Frá sjónarhóli íslenskrar þjóðar á Landsvirkjun að selja rafmagn eins ódýrt og hægt er. Landsvirkjun er ekki sjálfstætt fyrirtæki heldur eign þjóðarinnar. Hagsmunir þjóðarinnar eiga að ráða og það er ekkert afstætt við það.
Þegar maður veltir fyrir sér orkupakkanum þriðja í tengslum við hugmyndir um það hvernig orkan sem við virkjum úr íslenskri náttúru sé nýtt og mikilvægi hennar fyrir framtíð þjóðarinnar, þá held ég að við ættum láta hann vera þótt ekki sé nema vegna þeirra skilaboða sem samþykkt hans myndi senda börnum okkar og barnabörnum. En ef Alþingi samþykkir orkupakkann þriðja held ég að við lifum það svo sem af vegna þess að við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa þjóðarinnar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Austur vallar, þau afdrifaríku inni í hlöðnu steinhúsi sem blasir við Jóni Sigurðssyni, þau sem eru næstum takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni í öðrum húsum þar í nágrenninu.einnig.“
Nánar í Fréttablaðinu þ. 24. apríl 2019 bls. 14