Fjölmennum á þingpalla

Samtökin Orkan okkar hvetja baráttufólk gegn orkupakkanum til að fjölmenna á þingpalla í dag og á morgun á meðan umræða um málið stendur yfir og einnig við atkvæðagreiðsluna sem er fyrirhuguð mánudaginn 2. september.

Það eru engar líkur á að alþingishúsið verði baðað sólskini í dag og á morgun þar sem það er spáð rigningu báða dagana

Eins og kemur fram á vef Alþingis hefjast þingfundir í dag og á morgun klukkan 10:30. Líklegt er að þeir standi til klukkan 20:00 báða dagana. Dagskrá Alþingis fyrir næstkomandi mánudag hefur ekki verið birt.

Áður en atkvæði verða greidd munu fulltrúar Orkunnar okkar afhenda forseta Alþingis þær undirskriftir sem hafa bæst við frá afhendingunni 14. maí (Sjá frétt). 

Enn er tækifæri til að skora á þingmenn að hafna þriðja orkupakkanum. Í þessum skrifuðu orðum er heildarfjöldi undirskrifta að nálgast 16.500. Ef þú átt eftir að setja nafnið þitt á áskorunina þá skrifar þú undir hér.

Deila þessu:

Frá orkusamstarfi til orkusambands

Sérfræðiskýrlsla Orkunnar okkar var kynnt á opnum blaðamannafundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu föstudaginn 16. ágúst síðastliðinn. Heildarniðurstaðan er að upptaka 3. orkupakka ESB  „í íslensk lög sé skaðleg fyrir íslenska þjóð, efnahag hennar og náttúru“. Skýrsluhöfundar leggja „til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.“

Höfundarnir minna á mikilvægi þess að málið verði rækilega kynnt almenningi og í því skyni hefur skýrslan verið gerð aðgengileg öllum. Hægt er að smella á þessa krækju til nálgast hana í hefðbundnu pdf-formi.

Það er líka hægt að lesa hana í innfelda glugganum hér að neðan. Stjórnborð með flettiörvum og stækkunarmöguleika birtast með því að setja músina yfir gluggann.

SkyrslaOrkusamband_160819

Ritstjórar skýrslunnar eru: Jónas Elíasson, Stefán Arnórsson og Haraldur Ólafsson en Erlendur Borgþórsson er umsjónarmaður útgáfunnar. 

Aðalhöfundar efnis eru eftirtaldir:

 • Bjarni Jónsson, verkfræðingur
 • Elías B. Elíasson, verkfræðingur
 • Eyjólfur Ármannsson, lögfræðingur
 • Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra
 • Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra
 • Ragnar Árnason, prófessor
 • Stefán Arnórsson, prófessor
 • Sigurbjörn Svavarsson, framkvæmdastjóri
 • Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri
Skýrsluhöfundar hafa mikla þekkingu og reynslu af ýmsum hliðum efnahagsmála, orkumála og þjóðarréttar

Um er að ræða yfirgripsmikið verk upp á 82 blaðsíður. Það hefst á ágripi upp á rúmar 9 blaðsíður þar sem helstu atriði hvers kafla eru dregin saman. Kaflarnir eru alls 11 og er 9. kaflinn fyrirferðarmestur en hann fjallar um lagaleg atriði varðandi orkupakkann.

Aðrir kaflar fjalla um:

 • eðli orkulinda
 • orkustefnu ESB
 • orkupakka 4 og afleiðingar hans
 • orkulindir Íslands
 • viðskipti um sæstreng og íslenska raforkukerfið
 • stýringu íslenska orkukerfisins og orkuöryggi
 • efnahagsleg áhrif orkupakka 3
 • raforkufyrirtæki, náttúruauðlindir og orkustefnu ESB

Úgefendur og ábyrgðarmenn verksins er Orkan Okkar. Von er á prentvænni og styttri útgáfu skýrslunnar á allra næstu dögum.

Deila þessu:

Borgarafundur í Iðnó um orkumál

Lýðræðisflokkurinn, með Benedikt Lafleur í broddi fylkingar, stendur fyrir borgarafundi í Iðnó á morgun, sunnudaginn 18. ágúst. Fundurinn hefst klukkan 14:00.

Dagskrá fundarins er fjölbreytt en þar verða bæði tónlistaratriði og ljóðaflutningur ásamt hefðbundnum framsögum. Meðal þeirra sem stíga á svið eru Balz Roca, Aldís Schram, Una María Óskarsdóttir, Styrmir Gunnarsson og Albert Svan Sigurðsson ásamt Benedikt sjálfum.

Fundurinn er auglýstur á síðu Lýðræðisflokksins (smella hér til að skoða auglýsinguna). Yfirskrift fundarins er: Er Íslend til sölu – er lýðræðið í hættu?

Dagskrá fundarins eins og hún birtist í heilsíðuauglýsingu í Mogganum í dag

Fundargestir fá dreifildi frá Orkunni okkar með 10 góðum ástæðum til að segja NEI við orkupakkanum. Fulltrúar frá Orkunni okkar heimsækja fundinn í fundarhléi og selja límmiða í bíla til styrktar samtökunum í viðspyrnunni gegn orkulöggjöf ESB.

Deila þessu:

Viltu aðstoða okkur við dreifingu?

Nú þegar um hálfur mánuður er fram að þingstubbnum, þar sem gert er ráð fyrir að 3. orkupakkinn verði afgreiddur, blæs Orkan okkar til víðtækari kynninga á þeim margvíslegu rökum sem mæla gegn áframhaldandi innleiðingu orkulaggjafar ESB.

Heilsíðuauglýsingin í Mogganum í dag

Í dag birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu með 10 góðum ástæðum, sem samtökin hafa tekið saman, fyrir því að hafna pakkanum. Á morgun er von á dreifildi úr prentum þar sem sömu ástæður eru taldar.

Okkur vantar fólk til að aðstoða okkur við dreifinguna. Ef þú vilt aðstoða okkur þá er búið að stofna hóp á Facebook. Þeir sem eru tilbúnir til að dreifa eru hvattir til að smella á þessa krækju og sækja um inngöngu í hópinn. Þeir sem eru ekki á Facebook geta sent okkur póst á orkanokkar@gmail.com

Eins má minna á plakötin en það eru enn þá 250 eintök af þeim eftir (lesa meira um þau hér). Svo minnum við á límmiða í bíla fyrir þá sem vilja styrkja okkur í viðspyrnunni gegn innleiðingu 3. orkupakka ESB (lesa meira um þá hér).

Deila þessu: