Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar:
„Þótt ríflega áratugur sé liðinn frá hruni þá hefur þjóðin ekki gleymt. Sárin eru ekki gróin. Stofnanir samfélagsins, stjórnmál og stjórnsýsla, hafa ekki endurheimt traust almennings. Fólk hefur auk þess horft upp á tilhneigingu Evrópusambandsins að taka sér stöðu með fjármála- og viðskiptavaldinu gegn lýðræðinu eins og við kynntumst í Icesave-málinu og sést einnig vel í ofbeldiskenndri framkomu Evrópusambandsins gagnvart grísku þjóðinni. Það er því ekki skrýtið að íslenskur almenningur vilji hafa varan á þegar kemur að samskiptum við þetta stóra veldi sem er reyndar draumaland einstaka stjórnmálahreyfinga hér á Íslandi.
Í meira en öld hefur Framsókn oft verið í því hlutverki að miðla málum. Ég tel mjög mikilvægt að í vinnu þingsins við orkupakka þrjú vinni allir þingmenn samkvæmt samvisku sinni að því að tryggja hagsmuni Íslands og gleymi ekki að hlusta eftir þeim röddum sem hljóma utan þinghússins. Þeim tíma sem fer í að skapa sátt og einingu er ætíð vel varið.“
Nánar á Kjarnanum þ. 22. apríl 2019