5 góðar ástæður!

Það er komið sumar og þingmenn farnir í frí. Umræðunni um 3. orkupakkann er þó hvergi nærri lokið. Stefnt er að tveggja daga þingi í lok ágúst til afgreiðslu orkupakkamálsins. Þetta þýðir að það eru tveir mánuðir til stefnu til að kynna betur rökin sem mæla á móti innleiðingu pakkans.

Þennan tíma er rétt að nota til að draga fram mikilvægustu rökin sem mæla gegn orkupakkanum. Eitt af því sem Orkan okkar lét sér detta í hug er lítil könnun til að fá hugmynd um það hvaða atriði ráða mestu varðandi andstöðu þeirra sem eru á móti 3. pakkanum (krækja á könnunina).

5 góðar ástæður til að hafna 3 orkupakkanum

Könnunin var sett í loftið síðastliðið laugardagskvöld. Þegar þetta er skrifað, tæpum tveimur sólarhringum síðar, hafa um 450 manns tekið þátt. Eitt af því sem vekur hvað mesta athygli við niðurstöðurnar er hvað hún er afgerandi.

Spurningin sem er sett fram hljóðar nákvæmlega svona: Hver eftirfarandi atriða ráða mestu í sambandi við andstöðu þína við 3. orkupakka ESB? Atriðin á listanum eru 11 en þátttakendur hafa bætt við hann tveimur atriðum í kommentum.

Fimm efstu ástæðurnar eru:

  1. Sjálfræði í orkumálum flytst úr landi
  2. Hækkun á raforkuverði
  3. Innleiðing stangast á við íslenska stjórnarskrá
  4. Næstu orkupakkar
  5. Vöruverð hækkar (vegna hækkunar á raforkuverði)

Ef öll atriðin eru sett saman á mynd sjást línurnar, sem könnunin er að draga fram, enn þá skýrar. Þessi röðun var komin fram þegar í gærmorgun [sunnudagsmorguninn 30. júní] og hefur lítil sem engin hreyfing verið síðan. Efstu atriðin á listanum eru þó að skera sig skýrar frá hinum eftir því sem þátttakendum fjölgar.

Niðurstöðurnar kl. 15:30 mánudaginn 1. júlí

Atriðin sem þátttakendur hafa bætt við í kommentum eru:

  • Arðurinn af íslenskri orkusölu mun renna í vasa innlendra og erlendra auðmanna í stað þjóðarinnar.
  • Innleiðing 3. orkupakkans mun virka sem hvati til einkavæðingar Landsvirkjunar.

Ef þú ert á móti innleiðingu orkupakkans en hefur ekki tekið þátt er það að sjálfsögðu velkomið: krækja á könnunina

Deila þessu: