Frétt í mbl.is 10. apríl 2019
Morgunblaðið ræddi við Friðrik Árni Friðriksson Hirst sem stóð að álitsgerð um stjórnskipulega fyrirvara v. þriðja orkupakkans fyrir utanríkisráðuneytið. Hvað lagalega óvissu varðar vegna leiðar ríkisstjórnarinnar segir Friðrik aðspurður til að mynda ekki útilokað að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) teldi ástæðu til þess að höfða samningabrotamál fyrir EFTA-dómstólnum á þeim forsendum að Íslandi beri að innleiða þriðja orkupakkann að fullu í landslög.
Það yrði þá gert á þeim grundvelli að Alþingi hefði aflétt stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans eins og hann hefði verið tekinn upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mögulegt væri að málið þróaðist með þeim hætti.
Eins væri mögulegt að einstaklingar eða lögaðilar höfðuðu skaðabótamál gegn íslenska ríkinu ef þeir teldu að íslensk landslög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta samkvæmt EES-samningnum.