Að ýta vanda orkupakkans á undan sér eykur vandann

Eftir Elías Elíasson
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018

Elías B. Elíasson verkfr.

Það heyrist ítrekað frá ráðamönnum þjóðarinnar að best sé að samþykkja þriðja orkupakkann eins og hann er, en fást við sæstrenginn þegar það kemur upp. Það mundi setja EES-samninginn í uppnám að fella pakkann núna, segja menn. Sú hugmynd heyrðist frá formanni Sjálfstæðisflokksins að setja lög sem krefjast samþykkis Alþingis fyrir sæstreng og láta síðan reyna á þau þegar þar að kemur. Þessar hugmyndir byggjast á vanþekkingu og mér er spurn, hver ber ábyrgð á því að ráðamenn fái allar þær upplýsingar sem þarf til að móta afstöðu í þessu stóra máli.

Samþykkt þriðja orkupakkans í núverandi mynd færir vald á stjórn auðlindavinnslu í hendur hins frjálsa markaðar og landsreglarans, sem er óháður innlendum stjórnvöldum. Eftir þá gerð getum við ekki komið á auðlindastýringu sem samræmist EES-samningnum og getum heldur ekki fært fram nein rök gegn tengingu sæstrengs sem samræmast þeim samningi. Reyndar er sæstrengurinn IceLink þegar í lögum Evrópusambandsins sem forgangsverkefni og við yrðum skyldug til að setja hann ásamt nauðsynlegum styrkingum flutningskerfis okkar inn í kerfisáætlun Landsnets og landsreglarinn væri skyldur og hefði vald til að ganga eftir því.

Reglugerð ESB 347/2013 fjallar meðal annars um meðferð svo nefndra PCI (Projects of Common Interest) verkefna. PCI-verkefni eru framkvæmdir í tengineti Evrópu sem kerfisstjórar hinna ýmsu svæða gera tillögu um og séu þær dæmdar álitlegar fara þær inn á sérstaka skrá, PCI-lista sem ACER heldur utan um. Hinn íslenski kerfisstjóri, Landsnet hefur þegar gert slíka tillögu um sæstreng til Bretlands og hann er á listanum. Síðan skal framkvæmdastjórn ESB hafa umboð til að setja verkefni af þessum lista á Sambandslista (Union list) og þar með eru öll ríkin skyldug til að setja það verkefni inn í eigin kerfisáætlun með hámarks forgang. Sæstrengurinn er búinn að vera á Sambandslistanum síðan 2015. Bretar eru því skuldbundnir til að hafa hann í sinni kerfisáætlun og við verðum það líka um leið og við höfum samþykkt reglugerð 347/2013, en hún er viðbót við þriðja orkupakkann.

Ríki geta neitað að hafa verkefni á sínu landi inni á PCI-listanum og verða þá samkvæmt reglugerð 347/2013 að rökstyðja þá neitun. Eftir að við höfum samþykkt þriðja orkupakkann höfum við hins vegar engin rök sem standast EES-samninginn, fordæmi í úrskurðum eftirlitsnefndarinnar ESA eða dómafordæmi EFTA-dómstólsins. Gagnaðili í máli sem kynni að rísa út af slíkri neitun yrði framkvæmdastjórn ESB, sem væri þá að bregðast við upplýsingum frá breska landsreglaranum. Bretlands megin virðist undirbúningur miðast við að einkaaðili leggi strenginn. Slíkur aðili getur kært neitun Alþingis um heimild til ESA og EFTA-dómstólsins og mundi að öllum líkum vinna það mál. Okkar eigin landsreglari væri skyldugur samkvæmt ákvæðum tilskipunar 72/2009 til að styðja lagningu sæstrengs.

Þegar stjórnvöld búa við vaxandi vantraust þjóðarinnar eins og í þessu máli bætir það ekki stöðu þeirra að segja bara: við höfum engar skuldbindingar undirgengist varðandi sæstreng aðrar en þær sem eru löngu gerðar og reglugerð 347 er ekki enn hluti af orkupakkanum. Miðað við rök stjórnvalda í málinu munu þau ekki vísa þeirri reglugerð frá.

Það er fráleit hugsun að við verðum í eitthvað betri stöðu eða að það mundi setja EES-samninginn í minna uppnám ef við höfnum sæstreng eftir innleiðingu þriðja orkupakkans. Staðan yrði þvert á móti verri.

Orkuauðlind okkar er takmörkuð auðlind og hana ber að umgangast sem slíka og tryggja endingu hennar. Þegar við metum þá áhættuþætti sem þarf að varast þurfum við að horfa allt frá nokkrum mánuðum fram í tímann upp í 30 eða 40 ár eða lengur. Sérstaklega þarf að skoða áhrif nýtingar á jarðvarmaauðlindina til lengri tíma, en upplýsingar þar um eru af skornum skammti. Það dugar ekki að skilja afkomendur okkar eftir fátækari af orku en við erum í dag. Auðlindastýring felst í því að takmarka af varúðarástæðum orku sem tekin er úr auðlindinni hliðstætt því sem gert er með auðlindir sjávar. Slík takmörkun kemur fram sem magntakmörkun á afhendingu rafmagns og það stenst ekki EES-samninginn.

Alþingi er í þröngri stöðu í þessu máli. Fyrir framtíðarkynslóðir Íslands er þetta stærra mál en EES-samningurinn. Í samþykkt þriðja orkupakkans felst verulegt afsal valds frá kjörnum stjórnvöldum til annarra aðila og á endanum til þeirra sem samræma munu streymi orku eftir leiðum tenginets Evrópu. Eftir slíkt valdaafsal munu þeir aðilar í framtíðinni stjórna útflutningi orku frá Íslandi og þar með auðlindavinnslu hér eftir markaðsreglum ESB. Besta leiðin út úr þessu fyrir Alþingi og sú leið sem setur EES-samninginn síst í uppnám er að túlka þetta valdaafsal sem brot á stjórnarskrá og fella orkupakkann í núverandi mynd.

Höfundur er sérfræðingur í orkumálum. eliasbe@simnet.is

Deila þessu: