
Sigurður Páll Jónsson:
Síðan þriðji orkupakkinn var tekinn til umræðu á Alþingi hefur mikill tími farið í að ræða þann fyrirvara sem ríkisstjórnin segist ætla að setja á innleiðinguna. Með fyrirvaranum verða reglugerðir orkupakkans innleiddar en gildistöku hluta þeirra frestað, þ.e. þeirra sem gætu farið á svig við stjórnarskrána. Þótt það megi vissulega deila um hvort slíkur fyrirvari hafi eitthvert gildi þá má jafnframt benda á að innleiðingin er ekki eins og hún á að vera og því má búast við að Eftirlitsstofnun EFTA hafi eitthvað út á það að setja.
Í þessu samhengi er rétt að skoða nýlegar fréttir af þeirri málsókn sem á sér stað gegn stjórnvöldum í Belgíu. Ástæðan fyrir því að þessi málsókn er áhugaverð er sú að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins höfðar málið og hún gerir það sökum þess hvernig stjórnvöld þar í landi stóðu að innleiðingu þriðja orkupakkans.