Reykjavíkurbréf Mbl um innleiðingu þriðja orkupakka ESB: „Það eru aðeins ein rök færð fram fyrir því að Alþingi verði að samþykkja orkupakkann þriðja. Aðeins ein rök. Þau eru að það muni setja EES-samninginn í algjört uppnám ef málinu verði hafnað og engu breyti þótt sú höfnun sé í fullu samræmi við samninginn sjálfan. En það er ekki aðeins svo að slík höfnun sé í samræmi við samninginn sjálfan. Það að hún sé fullkomlega heimil er í raun forsenda þess að samningurinn var gerður og að það var stætt á því að gera hann. Þetta er eins augljóst og verða má. Ef Ísland gæti ekki hafnað tilskipunum frá Brussel og yrði að samþykkja þær þvert gegn vilja þjóðarinnar, þá þýddi það að Ísland hefði flutt löggjafarvald sitt úr landinu.
Ómar Geirsson: „Þegar þingmenn fullyrða síðan fullum fetum að þeir hafi ekki afsalað neinu forræði, eða að regluverkið snúist um neytendavernd en ekki crossborder tengingar, þá er þeir annað hvort hreinræktaðir blábjánar, hafandi ekki vitsmuni til að skilja sínar eigin gjörðir, eða hreinræktaðir lygarar.“ — „Nýting orkunnar á samfélagslegum forsendum, að framboð hennar sé öruggt og viðráðanleg öllum almenningi, er eitt af því góða við okkar samfélag, og varðandi atvinnulífið, samkeppnisforskot sem vinnur upp annað óhagræði sem fylgir smæð þjóðarinnar og fjarlægð frá mörkuðum. Um þetta hefur ríkt sátt að mestu en án allrar umræðu ætlar sá hluti alþingismanna, sem er fyrirmunað að segja satt orð um orkupakkann, að innleiða regluverk sem gerir ráð fyrir einum samevrópskum raforkumarkaði þar sem samkeppnismarkaðurinn ákveður raforkuverðið.“
Elinóra Inga Sigurðardóttir formaður Orkunnar okkar
Elinóra Inga Sigurðardóttir: Þriðji orkupakki ESB snýst ekki um sæstreng. Hann snýst um það hvort Íslendingar eru reiðubúnir til að framselja löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald í orkumálum Íslands til ESB eða hvort íslendingar vilja og geta ráðið sínum orkumálum sjálfir. „Það hefur verið fróðlegt að upplifa það að mörgum er alveg sama um hvort við missum valdið yfir orkumálum til erlendra aðila.“ „Það hefur verið fróðlegt að upplifa það að stjórnmálamenn eru tilbúnir að samþykkja þriðja orkupakkann þrátt fyrir að meirihluti kjósenda þeirra er á móti þeim gjörningi. Samkvæmt skoðanakönnun Bylgjunnar nýlega þá vilja 65% segja nei. Það hefur verið fróðlegt að upplifa það að flokkarnir Vinstri grænir, Píratar og Samfylking vilja markaðsvæða raforkuna, sem þýðir að milliliðum fjölgar frá framleiðanda til neytenda, sem þýðir að verð hækkar. Það hefur verið fróðlegt að upplifa það að í fréttum RÚV segir að raforkuverð muni ekki hækka. Það þarf ekki mjög gáfaðan einstakling til að sjá að ef milliliðum fjölgar þá hefur það áhrif á vöruverð. Það mun hækka.
Þorsteinn Sæmundsson: „Mjög hefur skort á þátttöku fjölmiðla í að kynna orkupakkamálið með skipulögðum hætti þó ekki megi setja alla undir sama ljós. Einkum hefur ríkisfréttastofan brugðist hlutverki sínu. Það er m.a. eftirtektarvert að fyrsta umfjöllun ríkisfréttastofunnar um fjöldasamtökin Orkuna okkar sem andæft hefur OP3 misserum saman fór í loftið fyrir viku. Ein umfjöllun að sjálfsögðu, síðan ekki söguna meir. Það er í sjálfu sér athugunarefni að RUV bregðist þannig lýðræðislegri og lögmæltri skyldu sinni. Önnur spurning er til hvers við rekum slíkan fjölmiðil fyrir almannafé ef hann efnir ekki lögmæltar skyldur sínar. Samkvæmt nýlegri könnun eru tveir þriðju hlutar þjóðarinnar á móti OP3. Þrátt fyrir það eru þeir sem taka svari þessa meirihluta sakaðir um andlýðræðislega tilburði. Hér snýr eitthvað á haus.“
Hildur Hermóðsdóttir skrifar í Mbl: „Í mikilvægum málum sem tekist er á um, er talað við áhrifamenn og talsmenn beggja eða allra sjónarmiða, dregin fram aðalatriði og leitast við að útskýra þau. Því miður sýnist mér þessu ekki þannig varið í fjölmiðlum okkar undanfarin misseri, jafnvel ekki í útvarpi allra landsmanna. Meðan allt logar í átökum um þriðja orkupakkann innan stjórnmálaflokka og í þjóðfélaginu öllu láta fréttamenn sér það í léttu rúmi liggja, eru ófeimnir við að draga aðeins fram sjónarmið annars aðilans og sleppa því oftast að birta fréttir af því sem er að gerast á hinum vængnum.“ — – „Fylgjendur orkupakkans hafa greinilega mun greiðari aðgang að fréttastofum. Hvernig ná þeir slíku tangarhaldi á fjölmiðlum að þeir fái ekki að fjalla ærlega um málið og gefa þjóðinni tíma og tækifæri til að kynna sér allar hliðar þess? Hvað á þessi leikaraskapur að þýða? Hvar er lýðræðið statt ef fréttamenn láta bjóða sér slíkt vinnuumhverfi? „
Er Alþingi orðið vanhæft?
Samtökin Orkan okkar hafa margoft bent á þá lýðræðisskekkju, sem fram kemur í umfjöllun RÚV (Útvarpi allra landsmanna) um innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Hvernig skyldi hlutverk Ríkisútvarpsins vera skilgreint í lögum?
Skv. Lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu (lögum nr. 23 frá 20. mars 2013) skal Ríkisútvarpið sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að: 1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. 2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar. 3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.
Nú það staðreynd, að lýðræðislega kjörnir fulltrúar almennings á Alþingi hafa ekki tök á því hver og einn til að kafa mjög ítarlega í hvert einasta þingmál og tillögur. Þeir hljóta því, líkt og almenningur, að reiða sig á ýmis gögn m.a. “ víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu “ umfjöllun Ríkisútvarpsins, sem skv. lögum ber þá skyldu að flytja vandaða og hlutlausa umfjöllun um mikilvæg málefni sem eru til umræðu í þjóðfélaginu hverju sinni. Þetta á ekki síst við um málefni sem skipta þjóðarhag verulegu máli og sem mismunandi skoðanir eru uppi um.
Þá vaknar sú spurning hvort Ríkisútvarpið hafi farið að lögum í umfjöllun sinni um þriðja orkupakka ESB? Ef ekki, hefur það haft áhrif á skoðanamyndun alþingismannanna okkar og þá í takt við þá umfjöllun?