Eftir Guðna Ágústsson
Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardag, 10. nóvember 2018
Það er merkilega lítil umræða af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um þriðja orkupakka ESB sem á að taka fyrir í febrúar nk. á Alþingi samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðherra.
Þetta gefur til kynna að þingsályktun ríkisstjórnarinnar sé til og stefna þegar tekin og afstaða klár. Mikil gerjun fer samt fram í grasrót ríkisstjórnarflokkanna allra, fundir og umræða sprengir heilu fundarsalina sé á annað borð boðað til fundar. Jafnframt virðist sem andófsfélög séu að búa um sig í flokkunum þremur og reyndar í stjórnarandstöðuflokkunum líka.
Enginn gleymir þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur sem skópu sigur í Icesave og urðu til þess að sprengja í loft upp vitlausar, auðmýkjandi kúgunartillögur Breta og ESB. Fyrir liggur að æðstu stofnanir Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafna þriðja Orkupakkanum. Og enn fremur að skoðanakönnun gerð í apríl/maí sl. vor greinir frá því að yfir 80% þjóðarinnar séu andvíg og að flokksmenn stjórnarflokkanna séu enn andvígari, það eru frá 86% upp í 92% sem hafna honum, andstaðan mest í Sjálfstæðisflokknum. Sennilega er aðild að orkupakkanum enn umdeildari en aðild að Evrópusambandinu og er það þó varla á dagskrá hjá hugsandi fólki, þótt Samfylkingin og hinn krataflokkurinn, Viðreisn, sé með það á tungubroddinum til að halda helteknum ESB-sinnum innan sinna vébanda. Nú hefur það gerst að höfuðpaur EES-samninganna, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur talað á Útvarpi Sögu og sagt, að venju, skoðun sína umbúðarlaust. Og við höfum aldrei séð fleiri mektarráðherra frá Noregi smjaðra jafn mikið fyrir ráðherrum okkar og brýna þá að samþykkja orkupakkann, eins og það séu okkar hagsmunir alveg sérstaklega. Láta eins og við séum landföst við Evrópu eða með járnbraut eða sæstreng út. Nú minna norskir ráðamenn á úlfinn í ævintýrinu um Rauðhettu litlu, eitthvað stórt býr undir.
Hvað sögðu Jón Baldvin og Peter T. Örebech? Jón Baldvin sagði á Útvarpi Sögu: „Við höfum ekkert með orkupakka ESB að gera, basta. Þetta varðar ekki Ísland og tæknilega kemur þetta Íslandi ekki við. Við seljum enga orku til Evrópu og ætlum ekki að leggja sæstreng.“ Svo bætti hann við: „Íslenskir hagsmunir eru þeir að gerast aldrei aðilar að orkupakka ESB.“ Og ennfremur að sæstrengur sé draumur þröngsýnnar klíku sem ein ætlar að græða á uppátækinu ásamt erlendum auðjöfrum. Kom þetta og margt fleira skýrt fram í máli Jóns Baldvins. Þótt Jón Baldvin sé ekki minn spámaður í pólitík þá hlusta ég alltaf þegar hann talar enda er hann með yfirburðaþekkingu á alþjóðapólitík og segir skoðun sína umbúðalaust. Ennfremur ber að nefna hér erindi norska lagaprófessorsins Peter T. Örebech á fundi í Heimsýn, en samkvæmt orðum Örebech er verið að stefna íslenskum hagsmunum í orkumálum og þar með sjálfsákvörðunar- og fullveldisrétti þjóðarinnar í stórhættu ef Alþingi samþykkir að innleiða regluverk ESB á bak við orkupakkann. Geta má þess að Örebech var einn þeirra sem börðust með okkur gegn Icesave og er virtur sérfræðingur í Evrópurétti.
Verða að svara áleitnum spurningum
Stóru spurningarnar sem ráðamenn verða að svara og gera upp við sig snúa að orkuauðlindunum sem allir Íslendingar eiga saman og njóta þeirra með einum eða öðrum hætti. Því skulu ráðherrar spurðir hér: Hefur t.d. innleiðing orkupakkans áhrif á eignarhald yfir orkuauðlindunum? Í öðrulagi: Hefur innleiðing orkupakkans áhrif á innlenda raforkumarkaðinn og þar með á verðlag á raforkuverði hér? Í þriðja lagi: Hjá hverjum verður ákvörðunarvald um sæstreng eftir innleiðinguna? Hverju breytir Brexit gagnvart sæstreng? Hvaða völd færast frá íslenskum stjórnvöldum til landsreglarans og ACER með innleiðingu orkupakkans? Nú er jafnan talið að EES-samningurinn stangist á við stjórnarskrá? Því var hafnað á sínum tíma en margir telja að yfirtaka orkupakkans sé brot á stjórnarskrá? Þessa innleiðingu þriðja orkupakkans skal líklega yfirtaka með einfaldri þingsályktun á Alþingi og hún þarf ekki að ganga til Bessastaða sem er alvarlegt ef þjóðina grunar að þar með sé verið að færa erlendum þjóðum orkuauðlindir okkar á silfurfati? Þá munu margir horfa til forseta Íslands.
Ég skrifa þessa grein til að hvetja minn flokk og ríkisstjórnarflokkana til að segja frá hvert skal halda og rökræða málið eins og gert var við EES-samninginn, árum saman. Flokkarnir eru enn burðarvirki lýðræðislegrar umræðu og ákvarðanatöku í landinu og grun hef ég um að allir yrðu þeir vændir um svik við flokksþing og landsfundi ætli þeir með málið í gegnum þingið órætt. Íslendingar eiga sjálfir að stýra sínum auðlindum og orkumálum þar liggur þjóðarvilji og á við um auðlindir lands og sjávar.