Hverjir eru hagsmunir Íslands af þriðja Orkupakka ESB?

Eftir Guðna Ágústsson  

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardag, 10. nóvember 2018

Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson f.v ráðherra

Það er merki­lega lít­il umræða af hálfu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um þriðja orkupakka ESB sem á að taka fyr­ir í fe­brú­ar nk. á Alþingi sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá for­sæt­is­ráðherra.

Þetta gef­ur til kynna að þings­álykt­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar sé til og stefna þegar tek­in og afstaða klár. Mik­il gerj­un fer samt fram í grasrót rík­is­stjórn­ar­flokk­anna allra, fund­ir og umræða spreng­ir heilu fund­ar­sal­ina sé á annað borð boðað til fund­ar. Jafn­framt virðist sem and­ófs­fé­lög séu að búa um sig í flokk­un­um þrem­ur og reynd­ar í stjórn­ar­and­stöðuflokk­un­um líka.

Eng­inn gleym­ir þjóðar­at­kvæðagreiðsl­un­um tveim­ur sem skópu sig­ur í Ices­a­ve og urðu til þess að sprengja í loft upp vit­laus­ar, auðmýkj­andi kúg­un­ar­til­lög­ur Breta og ESB. Fyr­ir ligg­ur að æðstu stofn­an­ir Fram­sókn­ar­flokks­ins og Sjálf­stæðis­flokks­ins hafna þriðja Orkupakk­an­um. Og enn frem­ur að skoðana­könn­un gerð í apríl/​maí sl. vor grein­ir frá því að yfir 80% þjóðar­inn­ar séu and­víg og að flokks­menn stjórn­ar­flokk­anna séu enn and­víg­ari, það eru frá 86% upp í 92% sem hafna hon­um, andstaðan mest í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Senni­lega er aðild að orkupakk­an­um enn um­deild­ari en aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og er það þó varla á dag­skrá hjá hugs­andi fólki, þótt Sam­fylk­ing­in og hinn krata­flokk­ur­inn, Viðreisn, sé með það á tungu­brodd­in­um til að halda heltekn­um ESB-sinn­um inn­an sinna vé­banda. Nú hef­ur það gerst að höfuðpaur EES-samn­ing­anna, Jón Bald­vin Hanni­bals­son, hef­ur talað á Útvarpi Sögu og sagt, að venju, skoðun sína umbúðarlaust. Og við höf­um aldrei séð fleiri mekt­ar­ráðherra frá Nor­egi smjaðra jafn mikið fyr­ir ráðherr­um okk­ar og brýna þá að samþykkja orkupakk­ann, eins og það séu okk­ar hags­mun­ir al­veg sér­stak­lega. Láta eins og við séum land­föst við Evr­ópu eða með járn­braut eða sæ­streng út. Nú minna norsk­ir ráðamenn á úlf­inn í æv­in­týr­inu um Rauðhettu litlu, eitt­hvað stórt býr und­ir.

Hvað sögðu Jón Bald­vin og Peter T. Öre­bech? Jón Bald­vin sagði á Útvarpi Sögu: „Við höf­um ekk­ert með orkupakka ESB að gera, basta. Þetta varðar ekki Ísland og tækni­lega kem­ur þetta Íslandi ekki við. Við selj­um enga orku til Evr­ópu og ætl­um ekki að leggja sæ­streng.“ Svo bætti hann við: „Íslensk­ir hags­mun­ir eru þeir að ger­ast aldrei aðilar að orkupakka ESB.“ Og enn­frem­ur að sæ­streng­ur sé draum­ur þröng­sýnn­ar klíku sem ein ætl­ar að græða á uppá­tæk­inu ásamt er­lend­um auðjöfr­um. Kom þetta og margt fleira skýrt fram í máli Jóns Bald­vins. Þótt Jón Bald­vin sé ekki minn spá­maður í póli­tík þá hlusta ég alltaf þegar hann tal­ar enda er hann með yf­ir­burðaþekk­ingu á alþjóðapóli­tík og seg­ir skoðun sína umbúðalaust. Enn­frem­ur ber að nefna hér er­indi norska laga­pró­fess­ors­ins Peter T. Öre­bech á fundi í Heim­sýn, en sam­kvæmt orðum Öre­bech er verið að stefna ís­lensk­um hags­mun­um í orku­mál­um og þar með sjálfs­ákvörðunar- og full­veld­is­rétti þjóðar­inn­ar í stór­hættu ef Alþingi samþykk­ir að inn­leiða reglu­verk ESB á bak við orkupakk­ann. Geta má þess að Öre­bech var einn þeirra sem börðust með okk­ur gegn Ices­a­ve og er virt­ur sér­fræðing­ur í Evr­ópu­rétti.

Verða að svara áleitn­um spurn­ing­um

Stóru spurn­ing­arn­ar sem ráðamenn verða að svara og gera upp við sig snúa að orku­auðlind­un­um sem all­ir Íslend­ing­ar eiga sam­an og njóta þeirra með ein­um eða öðrum hætti. Því skulu ráðherr­ar spurðir hér: Hef­ur t.d. inn­leiðing orkupakk­ans áhrif á eign­ar­hald yfir orku­auðlind­un­um? Í öðru­lagi: Hef­ur inn­leiðing orkupakk­ans áhrif á inn­lenda raf­orku­markaðinn og þar með á verðlag á raf­orku­verði hér? Í þriðja lagi: Hjá hverj­um verður ákvörðun­ar­vald um sæ­streng eft­ir inn­leiðing­una? Hverju breyt­ir Brex­it gagn­vart sæ­streng? Hvaða völd fær­ast frá ís­lensk­um stjórn­völd­um til lands­regl­ar­ans og ACER með inn­leiðingu orkupakk­ans? Nú er jafn­an talið að EES-samn­ing­ur­inn stang­ist á við stjórn­ar­skrá? Því var hafnað á sín­um tíma en marg­ir telja að yf­ir­taka orkupakk­ans sé brot á stjórn­ar­skrá? Þessa inn­leiðingu þriðja orkupakk­ans skal lík­lega yf­ir­taka með ein­faldri þings­álykt­un á Alþingi og hún þarf ekki að ganga til Bessastaða sem er al­var­legt ef þjóðina grun­ar að þar með sé verið að færa er­lend­um þjóðum orku­auðlind­ir okk­ar á silf­urfati? Þá munu marg­ir horfa til for­seta Íslands.

Ég skrifa þessa grein til að hvetja minn flokk og rík­is­stjórn­ar­flokk­ana til að segja frá hvert skal halda og rök­ræða málið eins og gert var við EES-samn­ing­inn, árum sam­an. Flokk­arn­ir eru enn burðar­virki lýðræðis­legr­ar umræðu og ákv­arðana­töku í land­inu og grun hef ég um að all­ir yrðu þeir vænd­ir um svik við flokksþing og lands­fundi ætli þeir með málið í gegn­um þingið órætt. Íslend­ing­ar eiga sjálf­ir að stýra sín­um auðlind­um og orku­mál­um þar ligg­ur þjóðar­vilji og á við um auðlind­ir lands og sjáv­ar.

Deila þessu: