Orkustefna rískisstjórnarinnar er frá ESB

Af lestri orkustefnunnar er ljóst að ekki er hægt að láta ESB ákveða orkustefnu Íslands.

Friðrik Daníelsson skrifar í Mbl:

Friðrik Daníelsson

Orkustefna til ársins 2050 heitir ný skýrsla frá ríkisstjórninni. Við lestur kemur í ljós að stefnumálin eru frá ESB, lítið er um íslensk hagsmunamál en því meira af tískumálum ESB, „loftslagsmál“ eru sögð tilefni helstu stefnumála. Verkfræðilega gegnhugsaða stefnu um mikilvægustu málin vantar í skýrsluna. Hún er slagorðasvaml fram og til baka og lítið fast í hendi, greinilega samin af takmarkaðri þekkingu á orkumálum en meira á EES tilskipunum. „Framtíðarsýn“: „Endurnýjanleg orkuframleiðsla gegnir grundvallarhlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni“. Orkuframleiðsla almennt hefur ekki mælanleg áhrif á loftslag, það er engin loftslagsvá eða útlit fyrir hana þó kólnað hafi lítillega síðasta hálfa áratuginn.

„Landið er leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu, orkuskiptum, orkunýtni og skilvirkri fjölnýtingu orkugjafa“. Ísland var fyrir daga EES með eitt hagkvæmasta orkukerfið og án óhagkvæmra orkumannvirkja (vindmylla og sólarpanela). „Árið 2050 hefur jarðefnaeldsneyti alfarið vikið fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Landið hefur náð kolefnishlutleysi árið 2040 –“ Endurnýjanlegir orkugjafar geta ekki keppt við jarðefnaeldsneyti í gæðum, verði og magni, þeir þurfa almennt meiri orku en þeir gefa af sér. Kolefnishlutleysi er fávís hugmynd. Olíu- og gaslindir endurnýjast, jarðefnaeldsneyti verður stöðugt til í Jörðinni. Meir en 10.000 Gt af jarðefnaeldsneyti samanlagt eru nú þekktar birgðir og enginn skortur fyrirsjáanlegur, mannkyn notar nú um 10 Gt á ári, þar af um 4,5 Gt á ári af olíu.

„Orkuöryggi hefur verið tryggt með framboði margvíslegra endurnýjanlegra orkukosta og traustum innviðum. Almenn sátt ríkir um orkumál, nýtingu orkuauðlinda samhliða náttúruvernd og uppbyggingu orkuinnviða. Neytendur hafa jafnt og öruggt aðgengi að orku á samkeppnishæfu verði á virkum orkumarkaði.“ Ísland hefur eingöngu notað hagkvæma orku, hér er verið að undirbúa byggingu óhagkvæmra og óöruggra orkuvera, vindmylla og sólarpanela, en um það getur trauðla orðið sátt þar eð slík orkuver valda miklum náttúruskemmdum. Að orkumarkaður á Íslandi sé „virkur“ er slagorð úr EES-tilskipunum sem hafa leitt af sér sýndarsamkeppni og dýrari orku. Orkuverð hér verður alltaf háð mishagkvæmum staðbundnum orkuverum, orkusala þarf því að vera í höndum almannafyrirtækja. „Ýmsir eldsneytiskostir eru í þróun sem geta leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi í þeim orkuskiptum sem standa yfir og framundan eru“. Það eru ekki til neinir eldsneytiskostir til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Orkuskipti eru útilokuð á mörgum sviðum vegna þess að orkuþéttni rafhlaða verður aldrei meiri en einhver % (nú um 2%) af orkuþéttleika jarðefnaeldsneytis, útilokar t.d. rafknúnar flugvélar. Hin svokölluðu orkuskipti stranda á afleiðingunum: Dýrum, notalitlum tækjum, lífskjaraskerðingu, fátækt og stórfelldum umhverfisskemmdum. „Endurnýjanlegt eldsneyti getur verið af lífrænum eða ólífrænum uppruna. – Til að mynda bjóða orkugjafar eins og vetni og metan upp á ýmsa möguleika –“ Hér er verið að svamla um lélegt og umhverfisspillandi eldsneyti úr jurtaolíu, sterkju eða tréni, sem þarf meiri orku en það skilar. Vetni frá rafgreiningu er ekki orkugjafi heldur orkumiðlari sem þarf miklu meiri orku en það gefur. Orkuþéttnin er um 0,03% af orkuþéttni bensíns. Haugloft (metan) og vetni fæst hagkvæmlega úr jarðefnaeldsneyti en er óhagkvæmt og óhreint úr sorpi. Eldsneyti framleitt úr vetni, hydrasín eða ammoníak, eru stórhættuleg í meðförum og orkurýr. „Aðgerðaáætlun C.4. Millilandatenging. Aðgerð: Greina áhættu vegna einangrunar íslenska orkukerfisins. Viðhalda möguleika á lagningu raforkusæstrengs frá Íslandi. Staða: Viðvarandi verkefni.“ Áhættan vegna einangrunar íslensks orkumarkaðar er lítil miðað við áhættuna af að leggja roforkusæstreng til ESB og tengjast orkukerfi ESB sem er í viðvarandi kreppu sem smitast mundi til Íslands með tengingu.

Mikilvægustu málin fyrir uppbyggingu íslensks orkubúskapar og velferð landsmanna vantar í skýrsluna eða er aðeins minnst á í framhjáhlaupi:

1) Það vantar ákveðna stefnu um langstærstu auðlind landsins, djúpvarmann.
2) Hvernig á að halda orkulindum og virkjunum á íslensku forræði fyrirtækja í eigu almennings, ESB fyrirskipar einkavæðingu á EES.
3) Hvenær á að þjóðnýta orkufyrirtæki almennings sem hafa verið einkavædd? Hitaveitu Suðurnesja?
4) Hvernig á að endurheimta hagkvæmni íslenska orkukerfisins?
5) Ætla stjórnvöld að innleiða 4. orkupakka ESB?
6) Hvaða vatnsföll og háhitasvæði á að virkja?
7) Til hvernig framleiðslu á að nýta aukna raforku landsins?
8) Hvernig á að auka nýtingu varma sem fargað er frá gufuaflsvirkjunum? Með ræktun, eldi, iðnaði og hitun?
9) Hvernig á að vinna og dreifa koltvísýringi úr jarðvarmanum til gróðurhúsa? Hvernig á að nýta metanið, vetnið, brennisteinsvetnið?
10) Hvernig á að standa að þróun olíu- og gasleitar á íslenska yfirráðasvæðinu (Dreka)? Hvernig á að vinna með Grænlendingum að olíu-, gasleit og vinnslu?

Höfundur situr í stjórn Frjáls lands

Deila þessu: