5.000 undirskriftir á tveimur sólarhringum

Orkupakkinn var samþykktur á Alþingi síðastliðinn mánudag. Í framhaldinu hleypti Orkan okkar af stað áskorun á forseta Íslands (smelltu á krækjuna til að fara beint í áskorunina) um að staðfesta ekki upptöku 3. orkupakkans inn í EES-samninginn nema að uppfylltu öðru hvoru eftirtalinna atriða:

  1. að sameiginlega EES-nefndin hafi veitt Íslandi undanþágu frá innleiðingu orkupakkans.
  2. að þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á að undirgangast skuldibindingar orkupakkans.
5.000 hafa þegar skorað á forsetann

Áskorunin byggir á 21. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki (sjá nr 33/1944). Auk þess má benda á eftirfarandi í grein Ólafs Ísleifssonar frá 25. júlí sl:

Aðferðum við að taka Evr­ópu­regl­ur í inn­lend­an rétt er lýst í grein í Tíma­riti lög­fræðinga 2016 und­ir fyr­ir­sögn­inni Upp­taka af­leiddr­ar lög­gjaf­ar í EES-samn­ing­inn – Hvað er unnt að gera bet­ur?

Í grein­inni sem er hluti af doktor­s­verk­efni höf­und­ar, Mar­grét­ar Ein­ars­dótt­ur, dós­ents í lög­fræði við Há­skól­ann í Reykja­vík, kem­ur fram að þegar Alþingi hef­ur með þings­álykt­un veitt samþykki sitt fyr­ir ákvörðun sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar að til­tekn­ar Evr­ópu­regl­ur hljóti laga­gildi séu staðfest­ingar­skjöl send til for­seta með beiðni um staðfest­ingu. Sam­starfsþjóðum í EFTA er ekki til­kynnt um samþykki Alþing­is fyrr en samþykki for­seta ligg­ur fyr­ir (bls. 19). [feitletrunin er okkar]

Á tveimur sólarhringum hafa 5.000 skrifað undir ofangreinda áskorun okkar. Athygli er vakin á því að þar sem um nýja áskorun er að ræða þarf að skrifa sérstaklega undir hana. Fyrri áskorunin var á þingmenn en ekki forsetann.

Deila þessu: