Ekki best í heimi takk!

Ögmundur Jónasson skrifar í Mbl:

„Ég held að ástæða sé fyrir Gullfoss að hafa áhyggjur af þessari þróun, Landmannalaugar líka, að ekki sé minnst á hin smærri náttúrudjásn.“

Ögmundur Jónasson

Ég neita því ekki að jafnan fer um mig hrollur þegar ég heyri stjórnmálamenn básúna að Íslendingar ætli að verða bestir í heiminum á einhverju tilteknu sviði, skara fram úr öllum öðrum, verða veröldinni fyrirmynd. Heimurinn horfir allur til Íslands, var sagt á fyrstu stigum kóvidfaraldursins og einu sinni átti Ísland að verða fremsta fjármálamiðstöð í víðri veröld. Við eigum okkur þann draum sögðu þáverandi forsvarsmenn þjóðarinnar og bættu því við að eftir miklu væri að slægjast því með því að gera Ísland að eins konar drottningarbúi fjármálalífs heimsins fengi þjóðfélagið allt vaxið til velsældar. Við hefðum allt til alls, þyrftum ekki að gera annað en losa um höftin sem fjármálakerfið byggi við, taka beislin af útrásarvíkingunum og mélin úr munni þeirra. Þá tækju þeir á stökk út í heim í leit að björg í bú. Þetta gekk svo eftir eins og alþjóð þekkir og líka hitt að í kjölfarið slógu íslenskir fjármálamenn ýmis met á heimsvísu, að vísu ekki nákvæmlega eins og lagt var upp með en met engu að síður. Nú á aftur að slá heimsmet. Okkur er sagt að Ísland skuli leiða heiminn til orkuskipta, verða fyrsta þjóð í heiminum sem búi við umhverfisvæna orku á öllum sviðum, til húshitunar, samgangna og við framleiðslu.

Nú skuli öllu kostað til – enda framtíð heimsins í húfi að Íslendingar leggi línurnar. Og aftur er sagt, við höfum allt til alls, nánast óendanlega mengunarlausa orku til eigin nota og hugsanlega fyrir aðra líka, við megum ekki bregðast! Stjórnmálamenn sem varla hafa sýnt náttúrunni meiri áhuga en að fara niður að tjörn að gefa öndunum eru skyndilega brennandi í umhyggju sinni fyrir framtíð lífríkis jarðarinnar. Við megum engan tíma missa segja þeir. Við verðum að láta af öllum tepruskap gagnvart ímynduðum náttúruperlum, ekki láta glepjast af slíkum lúxusvanda nú þegar heimurinn þarfnast okkar. Ekkert megi stoppa hina útvöldu þjóð. Og þannig er það að gerast að virkjunarsinnar Íslands eru orðnir harðdrægustu umhverfisverndarmenn sem Ísland hefur alið. Eða þannig er því stillt upp.

Vindmyllur sem víðast, virkja hverja sprænu, hvern hver og hverja heita holu. Þetta eru boðorð dagsins. Og síðast en ekki síst, virkja þarf það sem mikilvægast er að virkja, nefnilega hugarfarið. Og hvernig virkjum við það á markvissastan hátt? Að sjálfsögðu með því að samtengja eigingjarna gróðafíkn hinum háleitu markmiðum. Þess vegna þarf að markaðsvæða orkuna, framleiðslu, dreifingu og sölu á henni og þess vegna þarf að gera kolefnisjafnað andrúmsloft að söluvöru, láta mengunarkvóta ganga kaupum og sölum þannig að á öllu þessu megi græða. Og er ekki nákvæmlega þetta að gerast? Skipaður er umhverfisráðherra sem sagður er duglegur með afbrigðum. Það þykja mörgum góðar fréttir í ljósi þess hvert stefnt er. Þessa dagana berast fréttir af alþjóðlegum auðmönnum sem vilja fjárfesta í íslensku landi, það er að segja jarðveginum, fá að gróðursetja til að geta nælt sér í loftslagskvóta svo menga megi ögn meira í heimahögum eða bara til selja – og hagnast. En er þetta þá ekki bara fínt? Er ekki módelið sem auðkýfingar heimsins settu fram í Davos og gengur út á að græða á góðmennskunni, græða á umhverfisverndinni, græða á því að bjarga lífríki jarðarinnar það besta sem hugsast getur? Er það ekki þetta sem námskeiðshaldararnir kalla win-win, allir hagnast? Eða gæti verið að það séu aukaverkanir? Eins og sú að Ísland fór á hausinn þegar við vildum verða himnaríki fjármagnsins, margir misstu eigur sínar og hafa ekki náð sér á strik síðan.

Ég held að ástæða sé fyrir Gullfoss að hafa áhyggjur af þessari þróun, Landmannalaugar líka, að ekki sé minnst á hin smærri náttúrudjásn. Og svo eru það víðernin sem mig grunar að vilji mörg hver fá að vera áfram víðerni. Okkur er sagt að öspin sé afkastamesti framleiðandi súrefnis. Birkið hafi ekki roð við henni. Samkvæmt því sem lagt er upp með er framtíðin því asparinnar. Það verður hún sem kemur til með að byrgja sýn í fyrrum víðernum Íslands. Og þar erum við komin að kjarna málsins. Þegar ásælni í gróða er virkjuð og hún látin taka völdin hættum við að ráða því hvernig farið er með land okkar. Þá þurfum við að spyrja hvort það geti verið að hættulegasta markaðsvæðingin af öllu því sem fram er komið sé á hugarfarinu. Þegar búið verði að stimpla það inn að óhætt sé að græða á náttúruvernd og ekki nóg með það, þar helgi tilgangurinn meðalið, þá er voðinn vís. Það skyldi þó aldrei vera að það sé sjálft módel markaðshyggjunnar – módelið sem Davos vill verja – módelið sem byggir á því að fá meira og aftur meira, að það sé hinn eiginlegi skaðvaldur í lífríki jarðarinnar?

Höfundur er f.v. alþingismaður og ráðherra

Deila þessu: