Ekki best í heimi takk!

Ögmundur Jónasson skrifar í Mbl:

„Ég held að ástæða sé fyrir Gullfoss að hafa áhyggjur af þessari þróun, Landmannalaugar líka, að ekki sé minnst á hin smærri náttúrudjásn.“

Ögmundur Jónasson

Ég neita því ekki að jafnan fer um mig hrollur þegar ég heyri stjórnmálamenn básúna að Íslendingar ætli að verða bestir í heiminum á einhverju tilteknu sviði, skara fram úr öllum öðrum, verða veröldinni fyrirmynd. Heimurinn horfir allur til Íslands, var sagt á fyrstu stigum kóvidfaraldursins og einu sinni átti Ísland að verða fremsta fjármálamiðstöð í víðri veröld. Við eigum okkur þann draum sögðu þáverandi forsvarsmenn þjóðarinnar og bættu því við að eftir miklu væri að slægjast því með því að gera Ísland að eins konar drottningarbúi fjármálalífs heimsins fengi þjóðfélagið allt vaxið til velsældar. Við hefðum allt til alls, þyrftum ekki að gera annað en losa um höftin sem fjármálakerfið byggi við, taka beislin af útrásarvíkingunum og mélin úr munni þeirra. Þá tækju þeir á stökk út í heim í leit að björg í bú. Þetta gekk svo eftir eins og alþjóð þekkir og líka hitt að í kjölfarið slógu íslenskir fjármálamenn ýmis met á heimsvísu, að vísu ekki nákvæmlega eins og lagt var upp með en met engu að síður. Nú á aftur að slá heimsmet. Okkur er sagt að Ísland skuli leiða heiminn til orkuskipta, verða fyrsta þjóð í heiminum sem búi við umhverfisvæna orku á öllum sviðum, til húshitunar, samgangna og við framleiðslu.

Lesa Meira
Deila þessu: