Árni Már Jensson:
„Ein af spurningum fáránleikans í þessu O3 máli er:
Hvernig hvarflar það, að stjórnmálaflokkum í vestrænu lýðræðisríki, að svo mikið sem reyna, að fara gegn vilja umbjóðenda sinna, þjóðarinnar í jafn mikilvægu máli? Undiralda þjóðar gegn O3 er mjög þung um þessar mundir. Þetta mál er margslungið og krefst ítarlegrar umfjöllunar, umræðu og umsagnar þegnanna. Ég minni á lýðræðið í þessu samhengi og þann hugræna mátt að nýta hyggjuvit heillar þjóðar í atkvæðagreiðslu í stað fámenns hóps misvitra umboðsmanna valdsins. Ákvörðun með fjöregg þjóðarinnar er mikil ábyrgð sem krefst skilyrðislauss gegnsæis í allri umræðu og hefur reynslan af framsali auðlinda sjávar og einkavæðingu bankanna kennt okkur að stjórnmálastéttinni er ekki treystandi, nokkuð sem skýrsla RNA staðfesti.“
„Fari svo óheppilega að O3 verði að lögum frá Alþingi í óþökk okkar þegnanna, yrði það að öllum líkindum olía á bálköst ESB aðskilnaðarsinna og hugsanlegt upphaf að úrsögn Íslands úr EES samningnum sem yrði mun stærra, neikvæðara og afdrifaríkara mál en hægt er að gera grein fyrir hér. Ég er ekki viss um að flutnings, -og stuðningsmenn O3 í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu átti sig á þeirri pandóruöskju sem þeir fikta nú við, meðvitað eða ómeðvitað? Eða er þeim e.t.v. sama? Úrsögn Íslands frá EES samningnum yrði Íslenskri þjóð lýðræðislegt áfall; pólitísk, réttarfarsleg og viðskiptaleg afturför um áratugi. Enn og aftur, þögn flokka í stjórnarandstöðu er verulegt áhyggjuefni í þessu samhengi?“
Nánar á vefsíðu Kjarnans þ. 14. ágúst 2019