Fulltrúar Orkunnar okkar lögðu í morgun fram kæru hjá Vinnueftirlitinu vegna brota Alþingis gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í kærunni er bent á að nefnda- og þingfundir hafi staðið yfir nánast samfellt allan sólarhringinn um nokkra hríð. Kæran var líka lögð fram hjá lögreglu.
„Störf Alþingis eru um þessar mundir í andstöðu við Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum IX kafla laganna um hvíldartíma, frítdaga og hámarksvinnutíma. Lögboðinn 11. klst. hvíldartími er órafjarri frá því að vera virtur.“
Segir í kærunni, auk þess sem bent er á mikilvægi þess að alþingismenn geti haldið einbeitingu við störf sín og bíði ekki tjón á heilsu sinni. „Þá er einnig að því að hyggja að aðilar sem hagsmuna eiga að gæta [svo] og [allur] almenningur hafi tök á að fylgjast með umræðunni í rauntíma.“
„Málið er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að um sjálfan löggjafann er að ræða og með því háttalagi sem hér er vísað til er gefið í skyn að lögum þrufi bara að fylgja þegar hentar.“
Farið er fram á það í kærunni að Vinnueftirlitið og/eða lögreglan bregðist tafarlaust við og stöðvi yfirstandandi lögbrot.