Frosti Sigurjónsson:
“ Alþingi hefur það í valdi sínu að bæta einu skilyrði við orðalag þingsályktunarinnar þannig að Alþingi heimili ríkisstjórn að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að þriðji orkupakkinn verði hluti af EES-samningnum en aðeins að því skilyrði uppfylltu að sameiginlega EES-nefndin hafi áður veitt Íslandi undanþágu frá því að innleiða pakkann.“
Andstaða við þriðja orkupakkann er mikil meðal landsmanna, ekki síst meðal kjósenda stjórnarflokkanna. Málið hefur verið mikið rætt en svo virðist sem umræðan á þingi og í samfélaginu hafi einungis skilað vaxandi andstöðu við orkupakkann.
Varla ætla stjórnarþingmenn að berjast fyrir tillögu sem flestir kjósenda þeirra og einörðustu stuðningsmenn eru algerlega andvígir?
Betra væri að breyta tillögunni þannig að hún mæti ekki bara vilja Noregs, Liechtenstein og ESB til að taka þriðja orkupakkann inn í EES-samninginn heldur einnig óskum meirihluta þjóðarinnar um að Ísland verði undanþegið orkupakkanum.
Núverandi þingsályktun um þriðja orkupakkann orðast svo:
„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:“
Í framhaldi þessarar málsgreinar kemur upptalning á gerðunum sem eru átta talsins. Eins og sjá má er ályktunin án nokkurs fyrirvara og það hefur valdið áhyggjum. Verði hún samþykkt óbreytt fær ríkisstjórnin leyfi til að staðfesta umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann inn í EES-samninginn. Þá þarf bara undirritun utanríkisráðherra og forseta Íslands en að því loknu er Ísland orðið skuldbundið að þjóðarrétti til að innleiða allan þriðja orkupakkann í landslög – undanbragðalaust.
Áform stjórnvalda um að innleiða pakkann með einhliða fyrirvörum um að hingað komi ekki sæstrengur eru án fordæma og skapa lagalega óvissu sem hagsmunaaðilar gætu látið reyna á fyrir dómi. Ekki er hægt að segja fyrirfram hvernig slík dómsmál færu en bótakröfur á hendur ríkinu gætu numið milljörðum. Lögmenn hafa skrifað greinar í Morgunblaðið til að benda á þessa hættu.
Alþingi hefur það í valdi sínu að bæta einu skilyrði við orðalag þingsályktunarinnar þannig að Alþingi heimili ríkisstjórn að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að þriðji orkupakkinn verði hluti af EES-samningnum en aðeins að því skilyrði uppfylltu að sameiginlega EES-nefndin hafi áður veitt Íslandi undanþágu frá því að innleiða pakkann.
Tillagan gæti orðast svo eftir breytingu:
„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 með því skilyrði að sameiginlega EES-nefndin hafi áður staðfest að gerðir 2009/72/EB, 713/2009, 714/2009 og 543/2013 taki ekki gildi á Íslandi. Að því skilyrði uppfylltu heimilar Alþingi ríkisstjórninni að fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:“
Væri þannig breytt tillaga samþykkt af Alþingi væri ríkisstjórn Íslands og sameiginlegu EES-nefndinni gefinn kostur á að leysa vandamálið á ásættanlegan hátt fyrir alla aðila án frekari aðkomu Alþingis.
Í ljósi yfirlýsinga orkumálaráðherra EES og fulltrúa EFTA-ríkjanna um að orkupakkinn hafi litla þýðingu á Íslandi er allt eins líklegt að sameiginlega EES-nefndin veiti Íslandi undanþáguna. Þriðji orkupakkinn tæki þá gildi á EES-svæðinu en Ísland væri undanþegið innleiðingu hans. Fáist undanþágan hins vegar ekki kæmi málið einfaldlega aftur til Alþingis.
Nánar á mbl.is þ. 20. ágúst 2019