Fjórir hæstaréttarlögmenn rita grein í Morgunblaðið 7. ágúst til að vara við hættu á skaðabótamálum gegn ríkinu verði orkupakkinn samþykktur: „Rafmagn er vara samkvæmt EES-reglum og fellur því undir fjórfrelsið svonefnda, sem tryggir frjálst flæði á fólki, vörum, fjármagni og þjónustu innan svæðisins. Með þriðja orkupakkanum skuldbindur Ísland sig til að innleiða reglur um flutning raforku yfir landamæri þar á meðal um sæstrengi.
Án gildistöku þriðja orkupakkans verður ekki lagt í fjármögnun, lagningu og rekstur sæstrengs milli Íslands og ESB-ríkis. Taki orkupakkinn hins vegar gildi er sú fyrirstaða horfin. Bann við lagningu sæstrengs eða tilraunir til að leggja stein í götu slíks verkefnis gætu talist til ólögmætra viðskiptahindrana og hagsmunaaðilar gætu átt rétt á skaðabótum neiti Alþingi eða íslensk stjórnvöld þeim um leyfi til lagningar sæstrengs. Skaðabótakröfur í slíku máli gætu hlaupið á milljörðum og það hlýtur að teljast glapræði að innleiða orkupakkann án þess að kanna til hlítar þá lagalegu óvissu og efnahagslegu áhættu sem málið hefur í för með sér.“
Nánar í Mbl þ. 7. ágúst 2019