Orkan okkar – Áhugaverð þverpólitísk samtök

Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl:
„Kjarni málsins er þó sá, að umræðurnar um orkupakkann sýna, að umboðinu, sem kjörnir fulltrúar hafa frá kjósendum, eru takmörk sett. Þeir sjálfir verða að átta sig á hvar þau mörk liggja og að það getur haft pólitískar afleiðingar fyrir þá sjálfa, ef þeir virða þau ekki.”

Styrmir heldur áfram:
“ Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með því samstarfi, sem farið hefur fram innan Orkunnar okkar, þverpólitískra samtaka, þar sem saman koma einstaklingar úr nánast öllum flokkum vegna sameiginlegrar sýnar á tiltekið mál, í sjálfu sér með svipuðum hætti og gerzt hefur innan Heimssýnar. Innan hvorra tveggja samtaka er um að ræða samstarf á milli einstaklinga, sem stóðu áratugum saman í hörðum átökum vegna kalda stríðsins en hafa fundið sér sameiginlegt baráttumál, þegar kemur að málum, sem varða fullveldi Íslands. Það samstarf hefur sýnt að fólk með mjög ólík viðhorf til þjóðfélagsmála getur unnið vel saman að málum, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. En um leið ætti það að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir stjórnmálaflokkana, hvað mörg af helztu baráttumálum samtímans hafa fundið sér farveg utan vébanda þeirra sjálfra. Getur verið að í því felist vísbending um að þeir skipti minna máli í lýðræðislegum skoðanaskiptum innan samfélaga en áður var? Kjarni málsins er þó sá, að umræðurnar um orkupakkann sýna, að umboðinu, sem kjörnir fulltrúar hafa frá kjósendum, eru takmörk sett. Þeir sjálfir verða að átta sig á hvar þau mörk liggja og að það getur haft pólitískar afleiðingar fyrir þá sjálfa, ef þeir virða þau ekki. Hin pólitíska barátta fer ekki bara fram á milli flokka. Í auknum mæli tekur fólk höndum saman í baráttu fyrir ákveðnum málefnum og sú barátta fer fram utan flokkanna en ekki innan. Það dregur augljóslega úr vægi þeirra og ætti að vera forystusveitum þeirra nokkurt umhugsunarefni.

Nánar á vef Mbl þ. 3. ágúst 2019

Deila þessu: