Tveir náttúrverndarsinnar láta í sér heyra

Hún vekur sannarlega athygli fréttin inni á visir.is að það geti farið svo að skera þurfi á rafmagn á mestu álagstímum. Þessi framtíðarsýn er höfð eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets.

Tveir þekktir náttúruverndarsinnar hafa brugðist við fréttinni. Annar þeirra er Guðmundur Hörður Guðmundsson, fyrrum formaður Landverndar. Hinn er Andri Snær Magnason, rithöfundur, en hann skrifaði meðal annars Draumalandið.

Guðmundur Hörður gerir athugasemd við fréttir af málinu. Þar á meðal ofangreinda frétt. Þar segir hann:

Ef það er verið að selja orku umfram það sem til er á kerfinu þá er það óábyrgt klúður orkufyrirtækjanna. Íslendingum ber ekki skylda til að virkja þó að enn eitt fyrirtækið vilji fara að geyma hér tölvur fyrir rafmyntir erlendra glæpasamtaka.

Auk þess framleiðum við nú miklu meiri orku per íbúa en nokkur önnur þjóð í heiminum, helmingi meiri en Noregur sem kemur næst á eftir okkur. Ef okkur tekst ekki að verða sæmilega rík í slíkri stöðu þá er greinilega verið að gera eitthvað vitlaust hjá orkufyrirtækjunum.“

Andri Snær Magnason tekur nokkuð í sama streng í opinni færslu um fréttina á Facebook-síðu sinni. Hann fer þó ýtarlegar í málið.

Við erum langmesti orkuframleiðandi í heiminum á mann. Hér segir forstjóri Landsnets: ,,Að sögn Guðmundar Inga yrði orka þá skorin niður á daginn, og ákveða þyrfti hvort það yrði hjá fyrirtækjum eða einstaklingum. Einnig á hvaða svæðum.“ Hann talar um ,,breytingar á samfélaginu“.

Á Íslandi fer nánast heil Búrfellsvirkjun í að grafa eftir Bitcoin, notkunin slagar upp í alla orkunotkun almennings. Ef opinberir starfsmenn skerða raforku til almennings eftir að hafa selt of mikla orku í rafmyntarnámur þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir. Þeir eru beinlínis að svíkja fólkið sem þeim er ætlað að þjóna.

Hér er verið búa til falskan orkuskort og láta fólk halda að okkar eigin þarfir kalli á nýja virkjun. Sem er Orwellískt magnað og 100% dæmi um hvernig menn skammta upplýsingar og búa til ranghugmyndir hjá heilli þjóð, hún á að halda að hún hafi valdið orkuskorti með ,,breytingum á samfélaginu„.“

Það eru mörg afar athyglisverð komment við færsluna hans Andra Snæs og alveg þess virði að renna yfir þær.

Deila þessu: