Af hverju orkupakkann?

Sighvatur Björgvinsson skrifar í Morgunblaðið 28. mars 2019

Sighvatur Björgvinsson f.v. ráðherra

Andstaðan við Orkupakka 3 hefur m.a. mótast af því, að með honum væri að hefjast innleiðing Íslendinga inn í sameiginlegan orkumarkað Evrópu. Slík innleiðing myndi m.a. leiða af sér mjög hækkað orkuverð til almennings sbr. það sem orðið hefur í Noregi með aðild Noregs að hinum sameiginlega orkumarkaði Evrópu. Slík áhrif tengjast óhjákvæmilega því að gerast aðili að sameiginlegum markaði um orkumiðlun, orkusölu og orkuverð eins og verða myndi ef Íslendingar gerðust aðilar að sameiginlegum markaði Evrópuþjóða fyrir afurðir landbúnaðar – en þá til verðlækkunar en ekki verðhækkunar fyrir íslenskan almenning. Ósköp lítill áhugi virðist hins vegar fyrir þeirri markaðsaðlögun meðal íslenskra stjórnvalda þó hún myndi lækka framfærsluútgjöld heimilanna um miklar fjárhæðir. Það er sem sé í lagi að gerast aðilar að markaði, sem hækkar orkuverð heimila um háar fjárhæðir, en ekki í lagi að gerast aðilar að markaði, sem lækkar framfærslukostnað sömu heimila um sömu eða hærri fjárhæðir.

Hættan

Þá hefur verið bent á, að með aðild að sameiginlegum orkumarkaði kunni að vera hætta á að aðilum á þeim sama markaði utan Íslands verði gert auðveldara fyrir að nýta og jafnvel virkja íslenskar orkulindir. Einnig að með aðildinni opnist möguleikar, sem ekki eru nú til staðar, á því að erlendir fjármagnseigendur geti að mestu af eigin rammleik komið á tengingu milli íslenskrar orku og evrópskrar orkuþarfar með lagningu sæstrengs. Þá leiðir einnig af aðildinni, að þó virkjunaraðilum eins og t.d. Landsvirkjun gæfist kostur á að fá hærra orkuverð til eigin þarfa með sölu orku á hinum evrópska markaði þá yrði virðisaukinn, sem stafar af nýtingu þeirrar orku ekki til á Íslandi heldur í Evrópu. Virðisaukinn vegna nýtingar orkunnar, sem hér hefur birst í tekjum þjóðarbúsins af álverum, kísilverum og öðrum orkufrekum iðnaði og atvinnu og tekjum hópa landsmanna, sem þar starfa yrði til í einhverju Evrópulandanna þar sem íslensk orka yrði á boðstólum Þetta er auðvitað bein afleiðing af aðild að sameiginlegum orkumarkaði.

Ráðherrann sem samdi við sjálfan sig

Nú hefur utanríkisráðherra í samvinnu við sína eigin flokksmenn (að eigin sögn), aðra ráðherra og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tekist að semja um fyrirvara sem hann segir tryggja að ekkert af framansögðu geti gerst. Samþykki Orkupakka 3 muni sem sé engu breyta um aðild Íslands að evrópskum orkumarkaði, engu breyta um eignar- og ráðstöfunarrétt Íslendinga yfir orkulindum sínum, engu breyta hvað varðar áform um lagningu sæstrengs og þar með engu breyta um að virðisaukinn af orkuvinnslunni verði áfram til staðar bara á Íslandi. Eftirleiðis þurfi – eins og nú þegar er – aðkomu Alþingis til þess að fá þessu breytt. Sem sé – algerlega óbreytt ástand!

Ein spurning eftir

Eftir stendur þá aðeins ein spurning. Hún er þessi: Ef samþykkt Orkupakka 3 breytir engu hver er þá nauðsyn þess, að Alþingi Íslendinga samþykki hann? Ef það samþykki verður hvorki til þess að Ísland tengist orkumarkaði Evrópu né leiðir til neins af því, sem þeirri tengingu mun fylgja? Þetta er einföld spurning – sem enginn hefur samt spurt. Kallar á einfalt svar – sem enginn hefur samt gefið. Er svarið það, að við Íslendinga verðum að samþykkja umræddan orkupakka, sem engin áhrif hefur á orkumál okkar, vegna þess að Lichtenstein og Noregur eru bæði aðilar að orkumarkaði Evrópu og segjast þurfa á því að halda? Það hefur enginn enn fengið að vita. En ef samþykkt orkupakkans breytir engu fyrir íslensku þjóðina – hví er þá nauðsynlegt að afgreiða hann? Er slíkt og þvílíkt óumflýjanlegt fyrir Alþingi að verja tíma sínum til – nú, þegar hörð átök eru í aðsigi á vinnumarkaði og flugrekstur Íslandinga til og frá landinu í hættu, gengi krónunnar farið að veikjast, mikil hætta á fækkun atvinnutækifæra á vinnumarkaði, loðnubrestur orðinn staðreynd og aðalgjaldeyristekjulind landsmanna, ferðaþjónustan, horfist í augu við samdrátt? Er þá tíma Alþingis best varið í að ræða afgreiðslu máls, sem fullyrt er af stjórnvöldum, að engin áhrif muni hafa fyrir Íslendinga?

Höfundur er fv. iðnaðarráðherra.

Deila þessu: