Raforkumarkaður Landsvirkjunar

Eftir Elías Elíasson, birt í Morgunblaðinu 13. 12. 2018

Elías B. Elíasson

Landsvirkjun hélt fyrir nokkru morgunverðarfund um orkumarkað í mótun. Það var ánægjulegt að sjá, í erindi Sveinbjörns Finnssonar á fundinum, betur útfærða hugmynd um aðra leið að frjálsum markaði en þá sem undirritaður varpaði fram innan Landsvirkjunar fyrir hálfum öðrum áratug. Hugmyndin gengur út á að verðleggja orku Landsvirkjunar þannig að nokkuð fáist fyrir þann sveigjanleika sem vatnsorka fyrirtækisins hefur umfram jarðvarmaorku.

Form þess markaðar sem Landsvirkjun er þarna að lýsa er byggt upp á grundvelli þeirrar auðlindastýringar sem fyrirtækið ástundar í orkukerfi sínu og getur því hentað betur hér en form orkumarkaða í ESB. Það verður hins vegar að segja þá sögu eins og er, að þessi markaður er hvorki vel virkur í skilningi tilskipunar ESB nr. 72/2009 né þjónar hann langtímamarkmiðum ESB, svo landsreglarinn sem fylgir með í þriðja orkupakkanum getur illa samþykkt þetta markaðsform. Því svipar meira til markaða Evrópu eins og þeir voru 2003, þegar fyrsti orkupakkinn var samþykktur.

Heitið landsreglari á við Orkustofnun þegar hún vinnur að lögbundnum verkefnum samkvæmt tilskipun ESB, en þau skal vinna með því markmiði að koma fram stefnumálum sambandsins svo sem markaðsvæðingu eftir reglum ESB og sæstreng hver sem stefna ríkisstjórnar Íslands er. Það hefur verið gagnrýnt að setja þetta hlutverk Orkustofnunar í lög frá Alþingi og gera landsreglarann að óháðu stjórnvaldi hliðstætt ráðherra. Þessari gagnrýni svarar ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar því einu, að ekki verði stofnað sérstakt embætti landsreglara. Ráðuneytið virðist ekki skilja hlutverk landsreglarans til fulls.

Í fyrstu voru raforkumarkaðir svipaðir almennum uppboðum, þannig að viðskipti komust á við handsal. Eftir 2009 breyttist formið í það sem kalla má óbein tilboð þar sem viðskipti fara fram á því verði þar sem jafnvægi ríkir milli framboðs og eftirspurnar. Markaðsverð ákvarðast nú með skýrari hætti og verðjöfnun er markvissari, sem hvort tveggja er í samræmi við langtímastefnu ESB. Á þessu formi fellur raforkumarkaðurinn vel að því hlutverki sínu að taka við orkunni af eldsneytismörkuðum og flytja áfram í formi rafmagns til orkunotenda. Hlutverkaskipting verður þarna alveg skýr, eldsneytismarkaðir tryggja orkuframboð og raforkumarkaðir tryggja öryggi flutnings og vélaraflið sem þarf til að breyta eldsneyti í raforku.

Það hefur ætíð verið og verður að vera áfram hlutverk raforkufyrirtækjanna hér að tryggja orkuna og það gerir Landsvirkjun fyrir sitt leyti með auðlindastýringu. Hlutverk landsreglara er skilgreint af hálfu ESB þannig, að hann getur lítið annað en þvælst fyrir eða skaðað þegar reynt er að feta sig áfram að nothæfu markaðsformi sem tekur mið af auðlindastýringu eins og Landsvirkjun er að gera. Landsreglarinn er því óþarfur til allra annarra verka en þeirra sem kerfisstjórinn Landsnet getur ágætlega unnið án hans.

Þó Landsvirkjun sé komin vel af stað, þá er eftir sá hjallinn sem erfiðastur verður, sem er að gera sölufyrirtækin óháð móðurfyrirtækjunum. Þar með missa jarðvarmafyrirtækin markaðstryggingu sem er þeim mikilvæg, meðal annars vegna markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar. Á þessu sviði skaðar þriðji orkupakkinn.

Með sveigjanleika sínum veita vatnsorkuverin verðmætari þjónustu en jarðvarminn. Finna verður leið til að bæði þessi orkuform fái notið sín á markaðnum á hagkvæman hátt á heildina litið. Einnig þarf að taka tillit til þess að markaðsverðmæti orkunnar á hverjum virkjunarstað er afar misjafnt vegna mismunandi kostnaðar við orkuöflun.

Nauðsynlegt er að koma á auðlindastýringu yfir allt landið með þeim hætti sem Landsvirkjun hefur og taka jarðvarmann þar með. Ef við síðan ætlum að koma hér á frjálsum markaði er álitlegast að þróa áfram þann vísi sem Landsvirkjun kynnti á morgunverðarfundi sínum og hafa náið samráð við fyrirtækin á markaðnum. Samþykkt þriðja orkupakkans mun gera þetta ferli ómögulegt.

Þegar orkulögin voru sett 2003 og við samþykktum að vera í innri orkumarkaði ESB grunaði engan að ESB mundi taka þá stefnu að gera allt svæði innri raforkumarkaðarins að einu verðsvæði og breyta mörkuðunum svo þeir virki betur í þá átt. Til að koma þeirri stefnu örugglega fram lætur ESB þjóðþing landanna setja sérstakan yfirmann, landsreglarann, yfir raforkugeirann utan valdsviðs hverrar ríkisstjórnar en í reynd með ráðherravald og náin tengsl við ACER. ESB tryggir síðan með reglugerðum að landsreglarinn sé fulltrúi þjóðar sinnar í viðræðum, sem jafnvel geta valdið henni verulegum fjárskuldbindingum.

Hráorkan hér, vatn og jarðgufa getur ekki farið gegnum orkumarkað eins og eldsneyti aflstöðva Evrópu gerir og því nær vald landsreglarans einnig yfir vinnslu úr auðlindunum. Þannig virkar þriðji orkupakkanum hér á landi. Þetta fyrirkomulag vegur of mikið að fullveldi okkar og það er Alþingis að kveða fyrst upp þann dóm. Þingið á að hafna þriðja orkupakkanum.

Deila þessu: