Tilfinningagreind og orkupakkinn

Eftir Elías B Elíasson verkfræðing 

Elías B. Elíasson

Iðnaðarráðherra tjáði flokk­systkin­um sín­um um dag­inn í tengsl­um við orkupakka­málið, að til­finn­ing­ar fólks bæri að virða. Þarna dró Þór­dís Kol­brún fram skýrt dæmi um hvers vegna stjórn­um farn­ast oft bet­ur með kon­ur inn­an­borðs og mæli hún kvenna heilust. Á herðum venju­legs vel menntaðs og víðsýns fólks með góða til­finn­inga­greind hvíl­ir lýðræði og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og það ber að virða.

Með samþykkt orkupakk­ans eru öll völd á raf­orku­mál­um og þar með auðlind­um Íslands færð í hend­ur lands­regl­ar­an­um, sem verður reglu­setn­ing­ar­arm­ur Orku­stofn­un­ar ESB, ACER á Íslandi. Þetta tel­ur hinn venju­legi Íslend­ing­ur vera framsal á full­veldi og því stjórn­ar­skrár­brot. Það breyt­ir engu í huga fólks, þó lands­regl­ar­inn þurfi annað slagið að bregða upp ráðgjafa­and­liti Orku­stofn­un­ar og ráðleggja ráðherra að veita til­tekn­um aðila leyfi til að nýta auðlind­irn­ar, en án þess get­ur ráðherra ekki veitt slík leyfi. Ráðherra verður í þeim mál­um aðeins stimplari fyr­ir lands­regl­ar­ann.

Þó embætti lands­regl­ara sé stofnað með ís­lensk­um lög­um, þá eru þau sam­in að forskrift ESB og fjár­veit­ing­ar Alþing­is til embætt­is­ins verða und­ir eft­ir­liti ESB. Lands­regl­ar­inn má ekki hafa sam­ráð við önn­ur stjórn­völd und­ir öðru for­orði en hann eigi sjálf­ur síðasta orðið og hann sæk­ir lín­una reglu­lega á fundi hjá ACER. Það er því al­veg ljóst hvar trúnaður lands­regl­ar­ans mun liggja. Þetta er af­sal sjálfræðis eft­ir króka­leiðum.

Með samþykkt orkupakk­ans virkj­ast ákvæði eldri orkupakka um svo kallaðan frjáls­an raf­orku­markað, sem við höf­um hingað til getað sneitt hjá og þannig minnkað skaðann sem pakk­inn sá veld­ur okk­ur. Með því verða raf­orku­fyr­ir­tækj­un­um gefn­ar frjáls­ar hend­ur með að hækka raf­orku­verð heim­il­anna svo arðgreiðslurn­ar hækki og hug­mynd­in er að það fé renni í ein­hvern neyðarsjóð fjár­málaráðherra. Fólk er ekki hrifið af svona skatt­heimtu.

Al­menn­ing­ur á Íslandi hef­ur séð hér byggt upp hag­kvæmt og ör­uggt raf­orku­kerfi með sam­fé­lags­lega hags­muni að leiðarljósi án þess, að ESB hafi komið þar við sögu. Fólk sér í hendi sér, að með því að fela lands­regl­ara sem skyld­ur er að hafa stefnu ESB að leiðarljósi stjórn­un auðlind­anna gegn­um raf­orku­markaðinn, þá er þeim ár­angri sem við höf­um náð hætt. Annað hvort verður auðlind­inni stýrt með al­manna­hag fyr­ir aug­um og þeim áhrif­um sem það hef­ur á raf­ork­una, eða raf­orku­markaður­inn stýr­ir auðlind­inni með gróðasjón­ar­mið orku­fyr­ir­tækj­anna eitt fyr­ir aug­um.

Fólk tel­ur það sjálf­stæðismál, að við höf­um sjálf stjórn á okk­ar eig­in auðlind­um og lands­regl­ar­inn sem aðrir verði að hlíta þeim fyr­ir­mæl­um sem hon­um eru gefn­ar vegna auðlind­a­stýr­ing­ar, en það bann­ar ESB. Venju­legt fólk tel­ur viður­kenn­ingu á slíku banni óviðun­andi framsal á full­veldi og því stjórn­ar­skrár­brot. Þær yf­ir­lýs­ing­ar sem ráðamenn höfðu upp í upp­hafi orkupakka­máls­ins þess efn­is, að samþykkt pakk­ans breyti engu um yf­ir­ráð yfir auðlind­um okk­ar stand­ast held­ur ekki þegar þetta bann er skoðað. Lög­fræðihjal um ná­kvæma túlk­un orðanna valda­framsal og stjórn­ar­skrár­brot breyt­ir engu um skoðun Íslend­inga á því hvað orðið sjálf­stæði merk­ir.

Fólk skil­ur líka ofur vel, að það er lít­ill akk­ur að því fyr­ir ESB að þvinga upp á okk­ur 3. orkupakk­an­um og lands­regl­ara til að yf­ir­taka stjórn raf­orku­mála hér, ef ekki kem­ur sæ­streng­ur í kjöl­farið. Eft­ir sæ­streng kem­ur hækk­un á verði orku til alls al­menn­ings og skerðir kjör hans auk þess sem það eyk­ur kostnað fyr­ir­tækja svo geta þeirra til að greiða fólki laun minnk­ar, fjár­fest­ing­ar minnka og ný­sköp­un verður minni. Það, að tekju­auki raf­orku­fyr­ir­tækj­anna fari all­ur í ein­hvern neyðarsjóð sem ekki má snerta eyk­ur bara á þessi áhrif.

Í til­finn­ing­um fólks spegl­ast oft djúp­ur skiln­ing­ur á því hvernig okk­ar ein­angraða sam­fé­lag hér úti í höf­um vinn­ur sam­an að því að gera lífs­kjör okk­ar bæri­leg í þessu harðbýla landi. Sá skiln­ing­ur er grund­völl­ur þjóðfé­lags okk­ar og án hans verða öll Exc­elskjöl­in og lög­fræðiálit­in hjóm eitt. Fólk veit, að svo barna­börn­in fái unað sér á Íslandi við sæmi­lega af­komu þurfa þau sjálf að geta að stjórnað nýt­ingu á auðlind­un­um og það gild­ir um orku­auðlind­ina ekki síður en sjáv­ar­auðlind­ina.

Það er því rétt hjá iðnaðarráðherra, að til­finn­ing­ar fólks ber að virða í þessu máli. Orku­auðlind­in er tak­mörkuð ekki síður en sjáv­ar­auðlind­in og við þurf­um að geta geymt hluta henn­ar til nota fyr­ir þarf­ir framtíðar í stað þess að setja hana á markað er­lend­is og kaupa síðan aft­ur á yf­ir­verði þegar okk­ur vant­ar orku. Þetta gild­ir hvort sem við hugs­um bara til næsta vetr­ar eða kyn­slóðir fram í tím­ann. Fólk tel­ur betra að selja þessa orku út sem iðnvarn­ing frá okk­ar eig­in fyr­ir­tækj­um.

Óskorað vald yfir eig­in auðlind­um er stór hluti sjálf­stæðis. Þjóðin ætl­ast því til þess að Alþingi gangi svo frá mál­um, að allt framsal valds yfir þeim, hvort sem er beint eða eft­ir króka­leiðum þriðja orkupakk­ans verði klárt stjórn­ar­skrár­brot, því svo er í vit­und þjóðar­inn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2018

Deila þessu: