Í forsíðufrétt Morgunblaðsins 12. nóvember 2018 er sagt frá því að framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi hafi á kjördæmaþingi samþykkt að hafna þriðja orkupakkanum. Áréttað er í ályktuninni að ekki verði tekið upp í EES samninginn ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Í sömu frétt er rætt við Lilju Alfreðsdóttur, varaformann Framsóknarflokksins sem segir „Þetta verður rætt á haustfundi miðstjórnar um næstu helgi. Flokksþing hefur ályktað gegn orkupakkanum og þetta er eitthvað sem okkar bakland vill fara gaumgæfilega yfir, enda rík ástæða til,“ Lilja segir jafnframt að það sé skýrt í hennar huga að Framsóknarflokkurinn taki ekki þátt í að samþykkja framsal fullveldis til stofnana sem Ísland eigi ekki aðild að. „Það þarf að tryggja að þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við tökum á okkur stangist ekki á við stjórnarskrána. Það skiptir flokksmenn okkar miklu máli og við tökum fullt tillit til þess.“