Í frétt mbl.is 12. febrúar 2018 er vakin athygli á ummælum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í umræðum á Alþingi á þriðjudaginn í síðustu viku
„Mér finnst orðið tímabært að við tökum það til alvarlegrar skoðunar á þinginu hver staða EFTA-ríkjanna sé á grundvelli EES-samningsins þegar slíkar kröfur eru gerðar af hálfu Evrópusambandsins. Mjög fljótt á litið sýnist mér að það séu í raun og veru ekki kröfur sem samrýmast grunnhugsun EES-samstarfsins.“
Bjarni sagði þetta alvarlegt mál þar sem að þar væri í raun og veru vegið að grunnstoðum EES-samningsins, hinu svokallaða tveggja stoða kerfi, en kerfið felur í sér að EFTA/EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein heyra undir EFTA-dómstólinn og Eftirlitsstofnun EFTA við framkvæmd samningsins en ekki stofnanir Evrópusambandsins.
Bjarni sagði einnig
„í hverju málinu á eftir öðru, það er nánast orðinn árlegur viðburður, að Evrópusambandið krefst þess þegar við tökum upp Evrópugerðir, tilskipanir eða reglugerðir, að við Íslendingar fellum okkur við að sæta boðvaldi, úrslitavaldi, sektarákvörðunum eða með öðrum hætti skipunum frá alþjóðastofnunum sem Evrópusambandið hefur komið sér upp en við eigum enga aðild að.“
„Ég verð var við það í hverju málinu á eftir öðru að ákveðin þróun á sér stað sem við verðum að bregðast við. Mér finnst utanríkisþjónustan og einstök fagráðuneyti hafa staðið sig ágætlega í því að spyrna við fótum og fara fram á sérstakar lausnir en við sjáum aukna tregðu Evrópusambandsmegin og kannski vaxandi eftir Brexit [útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu], þar sem allir verða að falla í sama mótið og engar undanþágur eru samþykktar. Menn fara einfaldlega aftast í röðina ef þeir fara fram á sérlausnir.“