Sérstaða Íslands og Noregs

Bjarni Jónsson verkfræðingur skrifar

Um næstu mánaðamót er væntanleg til landsins Kathrine Kleveland, formaður norsku andófssamtakanna „Nei við ESB“.  Mun hún kynna hérlendis skelegga baráttu samtaka sinna gegn stöðugt vaxandi framsali fullveldis Noregs til yfirþjóðlegra stofnana ESB vegna EES-samningsins. 

Nákvæmlega hið sama á við Ísland í þessum efnum, en hér virðast menn dofnari og líta á það, sem gerist, sem einhvers konar óhjákvæmilega þróun.  Ef téð Katrín megnar að vekja Íslendinga af Þyrnirósarsvefni á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands, má ætla, að tíma hennar hér verði vel varið.

Sérstaða Íslands og Noregs er mikil innan Evrópu.  Báðar þjóðirnar búa í stóru landi m.v. fólksfjölda og ráða yfir enn stærra hafsvæði, margföldu á við landsflatarmálið. Þessi hafsvæði eru matarkista og undir hafsbotni eru eldsneytislindir, sem Norðmenn hafa nýtt sér í miklum mæli.  Hafa þeir safnað skatttekjum af olífélögum og arðgreiðslum ríkisolíufélagsins Statoil í sjóð síðan 1996, sem að stærð er um 2,5 x VLF Noregs eða um miaISK 100´000.  Frá 2016 hefur Stórþingið samþykkt að styðja við rekstur ríkissjóðs með fé úr sjóðnum, sem nemur um 3 % af eignum sjóðsins á ári.  Þetta er nálægt langtíma ávöxtun sjóðsins, en undanfarin ár hefur hún verið mun meiri, og hefur vöxtur sjóðsins verið ævintýralega hraður á núverandi áratugi.  Ríkissjóður Noregs væri líklega rekinn með bullandi tapi, ef olíusjóðurinn væri ónotaður, því að hann stendur undir um 18 % af útgjöldum norska ríkisins. Samt gengur norska ríkið ekki á höfuðstól sjóðsins, heldur hefur skotið öflugri stoð undir tekjugrunn hans.    

Á raforkusviðinu sker staða Noregs og Íslands sig algerlega úr í Evrópu. 

Í fyrsta lagi er raforkan unnin með sjálfbærum hætti úr vatnsafli að næstum 100 % í Noregi og 70 % á Íslandi og um 30 % þar úr jarðgufu.  Í ESB er hlutfall sjálfbærrar raforkuvinnslu innan við 30 %.

Í öðru lagi eru Norðurlöndin tvö sjálfum sér næg með raforku. Í Noregi er reyndar tiltæk í miðlunarlónum 15 % meiri orka en nemur raforkuþörfinni í landinu, en á Íslandi er betri nýting á fjárfestingum raforkukerfisins og sáralítil umframorka.  Það er reyndar vanfjárfest þar, því að ekki er unnt að fullnægja þörfum markaðarins innanlands vegna veikburða flutningskerfis (Landsnets) og teflt er á tæpasta vað með orkuforðann, eins og í ljós kemur í slökum vatnsárum (orkuskerðingar).

Í þriðja lagi er afhendingaröryggi raforku mikið í Noregi.  Á Íslandi á hið sama við, þar sem ekki eru flöskuhálsar og dreifingin er með jarðstrengjum (þriggja fasa).  Á meginlandi Evrópu var löngum mikið afhendingaröryggi raforku, en með „Die Energiewende“ í Sambandslýðveldi Þýzkalands hefur snarazt á merinni í þessum efnum, og hefur á hverju ári undanfarið legið við hruni rafkerfisins á háálagstímabilum með litlu sólskini og lygnu veðri. 

Hjá þýzkumælandi merkir „Die Energiewende“ eða orkuskipti, enn sem komið er, sjálfbæra raforkuvinnslu, sem er langt í land með að ná.  Á meginlandinu er reynt að leysa kola- og gasorkuver af hólmi með sólarhlöðum og vindorkuverum, en slíkt leiðir til óstöðugs framboðs raforku.  Eins og kunnugt er hafa Norðmenn og Íslendingar sett sér háleit markmið um að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngugeiranum og verða fremstir í Evrópu á þessu sviði.  Það verður hins vegar ekki hægt, ef auka á útflutning raforku í Noregi og hefja hann hér. Þannig er ljóst, að sala á „grænu“ rafmagni frá Noregi og Íslandi niður til meginlands Evrópu dregur ekkert úr loftslagsvánni.  Bretar hafa í þessum efnum skotið Þjóðverjum ref fyrir rass, því að engin kolakynt raforkuver eru lengur starfrækt á Bretlandi, en meira en þriðjungur raforkuvinnslu Þýzkalands fer fram í kolakyntum orkuverum, og sum þeirra nota jafnvel brúnkol.

Í fjórða og síðasta lagi búa Norðmenn og Íslendingar við ódýra raforku.  Orkuhluti raforkureiknings flestra hérlendis er sennilega á bilinu 4,5-5,5 ISK/kWh, og í Noregi er sá hluti yfirleitt á bilinu 3,3-5,2 ISK/kWh.  Á Bretlandi er verðið samsvarandi um 9,1 ISK/kWh, og í Þýzkalandi getur raforkuverð frá virkjun rokið upp í 30 ISK/kWh.  

Raforkan er á Íslandi og í Noregi alfarið afurð sjálfbærra náttúruauðlinda, en aðeins að litlu leyti í ESB.  Íslendingar og Norðmenn viðurkenna, að stjórnvöldum landanna beri að hafa vald til að beina nýtingu hinna sjálfbæru auðlinda sinna í ákveðinn farveg, sem gagnist öllum íbúum sem bezt, óháð búsetu.  Þetta þýðir að nota raforkuna til stórtækrar verðmætasköpunar, t.d. að breyta raforku í útflutningsvöru vítt og breitt um landið í iðjuverum.

Þannig er þessu alls ekki háttað í ESB, þar sem litið er á raforku sem vöru, sem „fljóta“ eigi hindrunarlaust yfir landamæri til hæstbjóðanda.  Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EU frá 13. júlí 2009, er einmitt til að ryðja úr vegi öllum hindrunum í hverju landi við þessu frjálsa flæði.  Til þess eru völd yfir ráðstöfun raforkunnar flutt frá rétt kjörnum þjóðþingum og yfirvöldum í hverju landi til stjórnsýslustofnunar ESB fyrir orku, ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  Þar hafa aðeins ESB-ríki atkvæðisrétt og segja útibúum ACER í hverju landi algerlega fyrir verkum um uppbyggingu orkuflutningskerfa og stjórnun raforkuflutninga.

Þessi staða mála er ekki í anda tveggja stoða samstarfsins, sem var grundvöllur upphaflega EES-samningsins.  Að Íslandingar og Norðmenn séu skyldaðir með lagasetningu að taka við skipunum um tilhögun orkumála eða annarra mikilvægra mála frá stofnun, sem ríkjasamband hefur komið sér upp, þar sem Íslendingar og Norðmenn eru ekki aðilar, er óviðunandi og brýtur í bága við stjórnarskrár landanna.  Á sömu lund talaði fjármála- og efnahagsráðherra úr pontu Alþingis 6. febrúar 2018 í umræðu um annað mál.  Ætlar ríkisstjórnin samt fram með þetta mál á vorþingi 2018.  Það væri með miklum ólíkindum, og því mun ekki verða tekið með þegjandi þögninni.  Í stað þess að rýja sig trausti með slíku háttarlagi ætti ríkisstjórnin nú í febrúar að taka þetta mál af dagskrá þingsins og færa það í allt annan farveg og leita í þeim efnum samhljóms hjá norskum stjórnvöldum.

Í verkefnaskrá Alþingis kemur fram, að fjalla eigi um málið á Alþingi í marz 2018 undir eftirfarandi sakleysislegu lýsingu: „Snýr að mestu að sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar„, þegar raunin er sú, að færa á stjórnun ráðstöfunar á raforkunni frá Alþingi og ríkisstjórn til ACER með ESA í Brüssel sem millilið.  „Something is rotten in the state of Danemark.“  Hér sannast „salamiaðferðin“ upp á búrókrata EES, sem Morgunblaðið gerði að umræðuefni í leiðara 9. febrúar 2018:

„Agúrkuvertíð“ ESB stendur allan ársins hring, þar sem sneitt er svo fínlega af fullveldi ríkjanna, að einstaka þjóðir taka ekki eftir því, enda gera þeirra eigin forystumenn sitt til að draga athyglina frá þessum lýðræðislegu skemmdarverkum.“

Þessari forystugrein lauk þannig:

„Það er ekki líklegt, að nokkur íslenzkur stjórnmálaflokkur muni standa vaktina fyrir landsins hönd, hvað þetta varðar fremur en nokkuð annað, sem kemur úr þessari átt.  Það er ömurlegt.“

Vonir standa til, að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að rumska. 

Deila þessu: