Mbl.is 4. nóvember 2018
Miðflokkurinn segir að allt bendi til þess að ríkisstjórnin ætli sér að innleiða hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins, þrátt fyrir ótal viðvaranir, heiman frá og að utan.
„Það er ótækt að jafnstórt hagsmunamál og hér um ræðir sé látið reka á reiðanum af starfandi stjórnvöldum. Að líkindum í trausti þess að málið, sem kallar á verulegt fullveldisframsal, renni í gegnum ríkisstjórn og Alþingi, án þess að til varna verði tekið.“
Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun sem var samþykkt á flokkráðsfundi Miðflokksins í dag, en fundurinn fór fram á Akureyri og lauk nú síðdegis.
Fram kemur í ályktuninni, að á hundrað ára fullveldi Íslands virðist ríkisstjórninni fyrirmunað að gera það eina sem þjóðin krefjist af henni, það sé að verja fullveldið.