
Verkefnisstjórn rammaáætlunar kynnti þann 30.1.2025 tillögur að flokkun tíu vindorkukosta. Nefndin leggur til að allir tíu kostirnir fari í biðflokk og kallar eftir umsögnum. Frestur var veittur til 24. apríl 2025.
Vindorku(ó)kostirnir nefnast: Alviðra, Garpsdalur, Hnotasteinn, Hrútavirkjun, Hrútmúlavirkjun, Mosfellsheiðarvirkjun I, Mosfellsheiðarvirkjun II, Reykjanesgarður, Sólheimar og Vindheimavirkjun.
Sveinulf Vågene, jarðfræðingur og ráðgjafi hjá Motvind Norge, var svo vænn að senda okkur greinargerð sem varpar ljósi á neikvæðar afleiðingar vindorku Í Noregi til að vara íslendinga við að gera sömu mistök og Noregur.
Greinargerð Sveinulfs hefur verið send til verkefnastjórnarinnar með stuttu kynningarbréfi sem hljóðar svo:
Með þessari umsögn vil ég vekja athygli á þeim alvarlegu áhrifum sem uppbygging vindorkuvera getur haft á náttúru, samfélag og efnahag Íslands.
Ástæða er til að skoða þessa þróun í ljósi reynslu annarra landa, sérstaklega Noregs, sem hefur á síðustu árum byggt upp fjölmörg vindorkuver á landsvísu.
Meðfylgjandi ier ítarleg samantekt Sveinulfs Vågene, jarðfræðings og ráðgjafa hjá Motvind Norge, sem varpar ljósi á neikvæðar afleiðingar vindorku Í Noregi og varar sérstaklega við að Ísland geri sömu mistökin.
Reynsla Norðmanna sýnir að þegar vindorkuver eru sett upp í víðerni og náttúrulegum svæðum hefur það djúpstæð áhrif á náttúrufar og lífríki. Í Noregi hafa hátt í 600 ferkílómetrar af áður ósnortinni náttúru orðið fyrir óafturkræfum spjöllum, og víða hefur útivist, náttúruvernd og líffræðileg fjölbreytni orðið fyrir skaða. Ísland, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir einstaka náttúru, þarf að gæta sín sérstaklega á því að fórna þeim verðmætum fyrir skammtímahagsmuni.
Sjónræn áhrif vindorkuvera eru umfangsmikil. Vindmyllur eru allt að 250–285 metrar á hæð, og með stöðugum blikkljósum trufla þær útsýnið í tugi kílómetra fjarlægð. Risavaxnar vindtúrbínur trana sér inn í landslagið og rýra upplifun heimamanna og ferðamanna sem vilja njóta víðerna og ósnortinnar náttúru.
Raska þarf víðernum með nýjum vegum og plönum og grafa fyrir undirstöðum úr steypu og stáli sem ekki er hægt að fjarlægja án gríðarlegs kostnaðar.
Ferðaþjónusta, sem er ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs, byggir að stórum hluta á náttúruupplifun. Ef víðernum og landslagi landsins er raskað með stórum iðnaðarmannvirkjum getur það haft langvarandi áhrif á aðdráttarafl Íslands sem ferðamannalands. Rannsóknir sýna að fólk forðast svæði með vindorkuverum og að ferðamannastraumur geti dregist saman á slíkum svæðum.
Einnig er nauðsynlegt að huga að lífsgæðum og heilsu íbúa. Hávaði frá vindmyllum getur borist langar leiðir, sérstaklega í fjalllendi. Reynsla frá Noregi sýnir að margir sem búa nálægt slíkum mannvirkjum upplifa svefntruflanir og vanlíðan. Í sumum sveitarfélögum hafa allt að 40% íbúa lýst vilja til að flytja frá heimilum sínum vegna nálægðar við vindorkuver.
Þá hefur reynslan í Noregi einnig sýnt að fyrirheit um ný störf og efnahagslegan ávinning hafa ekki staðist. Framkvæmdir eru oft í höndum erlendra verktaka, störf eru tímabundin og arður rennur ekki endilega til nærsamfélaga. Þar að auki sýna gögn að fasteignaverð lækkar á svæðum nálægt vindorkuverum.
Vindorka er óstöðug orkuuppspretta sem krefst stuðnings frá öðrum orkulindum. Til að tryggja áreiðanleika í raforkukerfi þarf að byggja upp dýrar jöfnunaraðferðir og styrkja flutningskerfi. Kostnaður vegna þessa lendir á almennum notendum, ekki orkufyrirtækjum sjálfum. Þrátt fyrir aukningu í vindorkuframleiðslu hefur raforkuverð í Noregi ekki lækkað – heldur þvert á móti hækkað, meðal annars vegna stóraukins kostnaðar við kerfið í heild.
Í ljósi varnaðarorða frá Noregi vil ég hvetja nefndina til að setja alla kostina í verndarflokk. Mikilvægt er að styðjast við sjálfstæð og gagnsæ gögn, greina áhrif af öllum hliðum – og forðast að gera sömu mistök og Noregur og Svíþjóð sem þegar hafa upplifað afar neikvæðar afleiðingar slíkra framkvæmda.
Ísland stendur á tímamótum, og það skiptir máli að velja stefnu sem tryggir bæði náttúruvernd, orkuöryggi og samfélagslegan stöðugleika til framtíðar.