Hildur Hermóðsdóttir skrifar í Mbl:
„Í mikilvægum málum sem tekist er á um, er talað við áhrifamenn og talsmenn beggja eða allra sjónarmiða, dregin fram aðalatriði og leitast við að útskýra þau. Því miður sýnist mér þessu ekki þannig varið í fjölmiðlum okkar undanfarin misseri, jafnvel ekki í útvarpi allra landsmanna. Meðan allt logar í átökum um þriðja orkupakkann innan stjórnmálaflokka og í þjóðfélaginu öllu láta fréttamenn sér það í léttu rúmi liggja, eru ófeimnir við að draga aðeins fram sjónarmið annars aðilans og sleppa því oftast að birta fréttir af því sem er að gerast á hinum vængnum.“
— –
„Fylgjendur orkupakkans hafa greinilega mun greiðari aðgang að fréttastofum. Hvernig ná þeir slíku tangarhaldi á fjölmiðlum að þeir fái ekki að fjalla ærlega um málið og gefa þjóðinni tíma og tækifæri til að kynna sér allar hliðar þess? Hvað á þessi leikaraskapur að þýða? Hvar er lýðræðið statt ef fréttamenn láta bjóða sér slíkt vinnuumhverfi? „
Er Alþingi orðið vanhæft?
Samtökin Orkan okkar hafa margoft bent á þá lýðræðisskekkju, sem fram kemur í umfjöllun RÚV (Útvarpi allra landsmanna) um innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Hvernig skyldi hlutverk Ríkisútvarpsins vera skilgreint í lögum?
Skv. Lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu (lögum nr. 23 frá 20. mars 2013) skal Ríkisútvarpið sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.
3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.
Nú það staðreynd, að lýðræðislega kjörnir fulltrúar almennings á Alþingi hafa ekki tök á því hver og einn til að kafa mjög ítarlega í hvert einasta þingmál og tillögur. Þeir hljóta því, líkt og almenningur, að reiða sig á ýmis gögn m.a. “ víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu “ umfjöllun Ríkisútvarpsins, sem skv. lögum ber þá skyldu að flytja vandaða og hlutlausa umfjöllun um mikilvæg málefni sem eru til umræðu í þjóðfélaginu hverju sinni. Þetta á ekki síst við um málefni sem skipta þjóðarhag verulegu máli og sem mismunandi skoðanir eru uppi um.
Þá vaknar sú spurning hvort Ríkisútvarpið hafi farið að lögum í umfjöllun sinni um þriðja orkupakka ESB?
Ef ekki, hefur það haft áhrif á skoðanamyndun alþingismannanna okkar og þá í takt við þá umfjöllun?
Nánar í Mbl þ. 24. ágúst 2019