Eyjólfur Ármannsson skrifar í Mbl:
“ Í umræðu um OP3 minnast stjórnvöld aldrei á orkustefnu ESB en lýsa því yfir að aðalmarkmiði stefnunnar verði ekki fylgt nema með samþykki Alþingis. Frá fyrstu málsgrein fyrstu orkutilskipunar ESB í OP1 hefur markmið orkustefnu ESB verið skýrt. Það er að koma á innri raforkumarkaði ESB með samtengdum og rekstrarsamhæfðum raforkukerfum á milli ESB-ríkja. Þetta aðalmarkmið orkustefnu ESB er margítrekað í OP1, OP2 og OP3.
Eyjólfur heldur áfram:
„Orkustefna ESB liggur fyrir og er hún innleidd í áföngum með orkupökkum. Stjórnvöld og sum hagsmunasamtök hafa kynnt sér orkupakkana en kannski ekki orkustefnu ESB. Sagt er að OP3 feli í sér litla breytingu fá OP2, en gæta eigi hagsmuna Íslands þegar kemur að OP4. Í umsögn hagsmunasamtaka (SI) um OP3 eru stjórnvöld brýnd að halda á lofti sérstöðu Íslands varðandi OP4 um endurnýjanlega orkugjafa og þurfi sú hagsmunagæsla að hefjast nú þegar. Orkustefnu ESB verður ekki breytt á innleiðingarstigi. Þá er einungis hægt að færa rök fyrir því að innleiðingin eigi ekki að gilda um Ísland. Fyrir liggur að stór hluti OP3 gildir ekki um Íslandi. Þrátt fyrir það ætla stjórnvöld að samþykkja OP3.
OP3 er að stórum hluta tæknileg markaðslöggjöf en felur í sér grundvallarbreytingu með Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER). Evrópuþingið telur að með OP3 sé lagður hornsteinn að innri orkumarkaði ESB. OP3 er bæði uppfærsla á OP2 og viðbót. Bæði OP2 og OP3 innhalda ESB-gerðir um raforkuviðskipti yfir landamæri og reglur innri raforkumarkaðar ESB en með OP3 er aukinn aðskilnaður samkeppnis- og sérleyfisþátta, aukin neytendavernd og raforkueftirlit. ESB-gerðin í OP2 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi er í OP3 orðin að ESB-gerð um stofnun ACER. Með samþykkt OP3 mun Ísland lúta valdi enn einnar stjórnvaldsstofnunar ESB (ACER) með tilheyrandi afsali á fullveldi. Ekki nóg með það, í skjóli aukins sjálfstæðis og einangrunar raforkueftirlits Orkustofnunar frá íslenskri stjórnsýslu er ESB-raforkueftirliti á landsvísu plantað inn í íslenskt stjórnkerfi. Það sem meira er, að hvorki er innleiðingin í landsrétt marktæk að stórum hluta né er að finna grundvöll fyrir núverandi orkustefnu ESB í EES-samningnum.“