Elías Elíasson skrifar í Morgunblaðið 14. mars 2019
Plaggið „Spurningar og svör um þriðja orkupakka ESB“ sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur enn á vef sínum er ótrúleg lesning, sem bendir til að þar á bæ skilji menn ekki þá gagnrýni sem beint er að þriðja orkupakkanum. Til dæmis er í spurningunni „Eykur þriðji orkupakkinn líkur á orkuskorti og hærra orkuverði?“ blandað saman tveim atriðum sem gagnrýnd hafa verið og rökstudd sitt í hvoru lagi. Ráðuneytið kýs að fjalla um þau út frá aðstæðum í Evrópu, þar sem takmarkað framboð orku veldur strax hærra orkuverði og hvetur þannig til fjárfestinga. Við íslenskar aðstæður þarf þetta ekki að gerast, það verður háð duttlungum náttúrunnar þannig að hér getur verið nægt framboð þar til skyndilega, að óvenju sein vorkoma veldur skorti. Þetta virðist ráðuneytið ekki hafa á hreinu.
Reglur ESB virka öfugt hér
Reglugerðir Evrópusambandsins virka einfaldlega ekki hér og á grundvelli þeirra verður vel virkur frjáls markaður með rafmagn ekki settur upp hér á landi. Eins og rakið er í ritgerð minni „Rafmagn til heimila og útflutnings“ á síðunni http://hhi.hi.is/vinnupappírar þá er orkuauðlindinni dreift á marga staði víðs vegar um landið og misjafnlega dýrt að nýta hana á hverjum stað. Við þær aðstæður getur samkeppnin ekki tryggt eðlilega verðmyndun sem hvetur til nýframkvæmda þegar jafnvægi ríkir milli framboðs og eftirspurnar, heldur myndast hvati til að taka of mikla áhættu á kostnað notenda. Reglur ESB tryggja því ekki orkuöryggi á Íslandi og öryggið minnkar enn með tilkomu sæstrengs.
Orkuöryggi er að minnka
Ótti vegna skorts á orkuöryggi kom óvænt fram á síðasta ársfundi Landsvirkjunar þegar forstjórinn hvatti til þess, að komið yrði á fót framleiðanda til þrautavara. Landsvirkjun hafði þetta hlutverk áður, en það þótti ekki samrýmast reglum ESB um viðskipti með rafmagn þegar þær voru fyrst innleiddar með nýjum orkulögum árið 2003. Þetta hlutverk er óþarft í Evrópu við þær aðstæður og þær reglur sem þar ríkja, en hér geta þessar sömu reglur ekki tryggt orkuöryggið nægjanlega. Við þurfum því að taka orð forstjóra Landsvirkjunar alvarlega.
Stefna ESB í orkumálum
Evrópusambandið leggur í reglum sínum mikla áherslu á að hindra mengun andrúmslofts og er í fararbroddi ríkja heims á því sviði. Sambandið er þó ekki á þeim stað að ástæðulausu, því við blasir sú ógn innan fárra áratuga, að eldsneytisbirgðir heims fara þverrandi. ESB er í þeirri stöðu eitt stórvelda heimsins að þurfa að flytja inn helming þeirrar orku sem það notar og fljóti það sofandi að feigðarósi í þeim efnum mun stórveldisdraumum bandalagsins ljúka verði það enn háð svo miklum innflutningi þegar eldsneytisbirgðir þverra. ESB vill bæta úr þessari stöðu með því að auka hlut vindorku í bandalaginu, en sú orka er ótrygg og hefur þegar náð því marki, að bæta þarf við jafn miklu gasafli og bætt er við af vindafli héðan í frá til að tryggja öryggið. ESB stefnir samt á, að tvöfalda vægi vindorku í raforkuvinnslu sinni. Við þessar aðstæður er það knýjandi nauðsyn fyrir bandalagið að komast yfir hina hreinu og sveigjanlegu orku Noregs og Íslands og nota hana til að keyra á lognið í Evrópu. Sæstrengur mun því koma í kjölfar þriðja orkupakkans og tengdra nýrri reglugerða. Þegar orkumálaráðherra fullyrðir að sæstrengur muni ekki koma er hún bæði að vanmeta ákveðni Bandalagsins í málinu og lofa upp í ermina á öðrum stjórnmálaöflum sem munu samþykkja sæstreng orðalaust.
Sæstrengur
En það er ekki sæstrengurinn sem er aðalmálið í bili, það er að segja ef stjórnvöld eru farin að átta sig á því, að þurfi hann að koma í anda samstöðu um að standa við loftslagsmarkmið Parísarsamkomulagsins verður það að gerast samkvæmt tvíhliða samningum þar sem hagsmuna Íslands er gætt til jafns við hagsmuni ESB.
Auka þarf samvinnu, ekki samkeppni
Það sem við þurfum að huga að nú er sú ótvíræða reynsla okkar af orkulögunum frá 2003, að reglur ESB hindra nauðsynlega samvinnu. Landsreglarinn sem skilgreindur er í þeim hluta orkupakkans sem nú er til meðferðar á fyrst og fremst að auka samkeppni, sem okkur vantar ekki núna og innleiða reglur ESB sem koma í veg fyrir þá samvinnu sem okkur vantar. Sú samvinna næst best gegnum auðlindastýringu að hætti Landsvirkjunar.
Lokaorð
Sú röksemd, að ekki megi hafna þriðja orkupakkanum af ótta við áhrifin á EES samninginn táknar, að of miklu hefur þegar verið afsalað af fullveldi okkar til að við getum talist fullkomlega sjálfstæð þjóð.
Við eigum ekki annan kost en að tjá ESA nefndinni og Evrópubandalaginu að reglur þess og skilgreining á hlutverki landsreglarans sem skal tryggja framgang þeirra hindri okkur í að nýta auðlindir okkar á skynsamlegan og ábyrgan hátt og séu þannig brot á stjórnarskrá Íslands. Við verðum því að hafna orkupakkanum og allar gagnráðstafanir ESB verði að túlkast sem ógn við fullveldi landsins.