Orkan okkar

Ögmundur Jónasson skrifar í Morgunblaðið 9. mars 2019

Ögmundur Jónasson

Í fjölmiðlum, ekki síst í Morgunblaðinu, hefur farið fram mikil og oft á tíðum mjög upplýsandi umræða um orkustefnu Evrópusambandsins. Í þessari umræðu hafa kunnáttumenn úr orkugeiranum útskýrt hvað felist í svokölluðum „orkupökkum“ ESB, en samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðið til að Íslendingar samþykki „þriðja orkupakkann“ á yfirstandandi þingi. Ekki er þó útséð um það því Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vill skoða málið nánar. Það er vel.

Áleitnar spurningar um framtíð orkugeirans

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra gefur þessari umræðu hins vegar ekki háa einkunn á nýafstöðnum ársfundi Landsvirkjunar þar sem hún greindi frá þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja viðræður um kaup ríkisins á eignarhlutum í Landsneti.

Landsnet, sem er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar, á og rekur allar meginflutningslínur rafmagns hér á landi. Aðrir eignaraðilar eru einnig í almannaeign, þ.e. RARIK, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða.

Meiningin er semsagt að almenningur selji almenningi, það er að segja sjálfum sér. Eflaust er það, þröngt skoðað, hið besta mál verði það til þess að tryggja með skýrum hætti að Landsnet sé grunnþjónusta í eigu og á vegum almennings, aðskilið því sem er rekið á forsendum einkaeignarréttar. Þegar hér er komið sögu gerast hins vegar áleitnar ýmsar spurningar um framtíðaráform varðandi eignarhald á Landsvirkjun.

Lágt orkuverð eða mikil arðsemi?

Svo er nefnilega að skilja, að það sjónarmið sé að verða ofan á, að ávinningur almennings af orkunni eigi ekki að felast í lágu orkuverði í gegnum eignarhaldið, heldur arðinum af markaðsbúskap með orkuna sem þá hugsanlega renni í fyrirhugaðan Þjóðarsjóð. Þar með væri búið að tengja hvata til að framleiða sem mesta orku sem seld yrði á sem hæstu verði til kaupenda. Þjóðin myndi síðan hagnast af arði og skattlagningu. Svo er að sjá að verið sé að kortleggja þessa framtíð. Varla hugnast íslenskum garðyrkjubændum hún né umhverfis- og verndunarsinnum.

Mbl.is greinir frá

Umræða um þessi efni segir iðnaðarráðherra, samkvæmt mbl.is hinn 28. febrúar, „hefur farið út um víðan völl. Þó væru menn að byrja að átta sig á samhengi hlutanna: „Orkupakkarnir voru ekkert annað en markaðspakkar, og sá þriðji er það líka,“ sagði ráðherra og bætti við að samkeppni á raforkumarkaði hefði aukist frá samþykkt fyrri pakkanna. Þórdís Kolbrún sagðist hafa heyrt af því að hópur fólks sem ætlaði að berjast gegn samþykkt þriðja orkupakkans á Alþingi ætlaði að fara fram undir slagorðinu „Okkar orka“ og sagðist hún túlka þau skilaboð sem svo að þessi hópur teldi orkuauðlindina af sama meiði og fiskinn í sjónum, þ.e. í sameign þjóðarinnar. Svo er ekki, sagði ráðherra, og lagði áherslu á að vatnsafl og jarðvarmi og nýtingarréttur af þeirri auðlind væri í hendi landeigenda“.

ACER aftengir lýðræðið

Það er vissulega rétt hjá ráðherranum að orkupakkarnir eru fyrst og fremst „markaðspakkar“ og þriðji pakkinn færir fyrirhugaðan raforkumarkað undir samevrópskt eftirlit sem nefnist ACER, Agency for the Cooperation of Energy Regulators, sem hefur á hendi úrskurðarvald um ágreining á raforkumarkaði. ACER er ætlað að aftengja allt sem heitir lýðræði ákvörðunum á markaði. Út á það gengur þriðji orkupakkinn!

Lægst orkuverð á Íslandi – ennþá

Og á evrópskum markaði er raforkuverð lægst á Íslandi. Það kæmi hins vegar ekki að sök, fylgir sögunni, því hagnaðurinn endaði á endanum í Þjóðarsjóðnum eða í skatthirslum ríkisins. Það er mikilvægt að við gerum okkur fulla grein fyrir þessu, að með tengingu Íslands við evrópskan orkumarkað væru liðnir dagar lágs orkuverðs á Íslandi. Ekki er þó sjálfgefið að við tengjumst evrópskum markaði með sæstreng eða öðrum hætti í bráð þótt við féllum undir ACER. En forræði okkar væri farið eins og reyndar hefur verið að gerast smám saman með fyrri „pökkum“. Það er rétt hjá iðnaðarráðherranum.

Barátta og málþóf þokaði okkur áfram

En varðandi útleggingar ráðherrans á eignarhaldi orkunnar þá er þetta nú ekki alveg svona einfalt, alla vega eins og ég skil það. Er það ekki svo að drjúgur hluti þjóðarinnar hefur verið að reyna að koma auðlindunum í þjóðareign, þar á meðal hópurinn sem ráðherrann talar niður til, „Orkan okkar“?

Þetta er ekki auðveld barátta en hún hefur engu að síður verið háð af hálfu þeirra sem vilja horfa vítt yfir völlinn. Um aldamótin var tekist á um eignarhald á vatni. Niðurstaðan varð ekki ákjósanleg en um sumt varð ávinningur í jaginu fram og til baka, endalausu „málþófi“ á Alþingi góðu heilli! Þannig var sett inn í vatnalögin árið 2011 klásúla sem segir: „Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu þeirra er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti rétt til umráða og hagnýtingar á því vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 10 MW.“

Þarna vildi löggjafinn sjá við því sem áður hafði verið fest í lög að vatnsréttindi fylgdu án takmarkana eignarhaldi á landi sem selt er. Hafi ríkið eða aðrir handhafar almennings á annað borð öðlast eignarhald á landi þá var með þessari lagasetningu kominn inn varnagli varðandi vatnið. Til þessa varnagla þarf m.a. að horfa þegar lög um eignarhald á landi verða endurskoðuð.

Orkan verði okkar

Þetta er samfélagið að takast á um og fagna ég sérstaklega umræðunni sem sprottin er frá hinum óformlegu en þverpólitísku samtökum „Orkunni okkar“. Þar á bæ rýna menn í smáatriði tilskipana og reglugerða sem varða orkupakka Evrópusambandsins jafnframt því sem horft er vítt yfir. Hvort tveggja þarf að gera. Við afvegaleiðumst ef við reynum ekki að sjá hvert stefnir, hvert förinni er heitið. Þess vegna þarf umræðan að fara um víðan völl. Annars verður þess skammt að bíða að orkan verði ekki okkar.

Höfundur er fyrrverandi innanríkisráðherra.

Deila þessu: