Eftir Jónas Elíasson, birtist í Morgunbl. 30.1.2019
Í fyrstu þverbeygjunni var smávirkjanaleiðin yfirgefin og tekin upp stóriðjustefna. Þetta leiddi af sér lægra orkuverð til almennings, landbúnaðar og fiskiðnaðar og var til góðs. Önnur þverbeygjan var orkupakki ESB númer tvö, þá var fyrirtækjum skipt upp til að auka samkeppni, en það bar engan marktækan árangur. En svo mörg ný fyrirtæki voru stofnuð og svo margar nýjar stjórnir settar á stofn að til vandræða horfir í samskiptum orkuiðnaðar og hins opinbera.
Þriðja þverbeygja er pólitískur misskilningur
Nú er þriðja þverbeygjan í uppsiglingu: Þriðji orkupakki ESB. Hvað hann innifelur er langt mál, en um það má lesa á netinu[1]. Það er samt greinilegt að almenningur, einkum sá hluti hans sem fæst við stjórnmál, botnar ekkert í þessum pakka. Þetta kemur greinilega fram í endurteknum fullyrðingum alþingismanna og ráðherra: Þó við samþykkjum orkupakkann þarf ekki að leggja neinn sæstreng til útlanda. Hvað er rangt við þetta ? Málinu er þveröfugt farið: Ef við leggjum engan sæstreng til útlanda þarf engan orkupakka, hann verður bara til trafala. Orkupakkanum er ætlað að undirbúa komu okkar inn á evrópska raforkumarkaðinn sem er miðstýrt frá Ljubljana í Slóveníu. Ef við tengjumst ekki þeim Evrópumarkaði, þ.e.a.s. leggjum ekki sæstreng, er best að vera utan áhrifasvæðis þeirrar miðstjórnar. Það er best fyrir okkur og best fyrir Lubljana. Norðmenn gætu reiðst okkur og rekið landið úr EES segja einhverjir á Alþingi. Þetta er hræðsluáróður sem ekkert er á bakvið.
Af hverju stafar þá þessi þvermóðska stjórnmálamanna að vilja endilega samþykkja orkupakka sem er vafasamur í nútíð og framtíð? Skýringin er hin flókna skriffinnska ESB. Reglurnar eru búnar til mörgum árum áður en þær taka gildi, orðalag og ákvarðanataka um innihald er dæmigert völundarhús skriffinnsku sem enginn á að finna út úr nema innvígðir. Þarna þarf að biðja um undanþágu á sérstökum stað í framleiðsluferlinu og Íslendingar hafa misst af því. Ekki bara núna heldur oft áður. Ríkisstjórnin vill greinilega ekki þurfa að játa þetta fyrir sína hönd og sinna embættismanna.
Öll orka verður seld til Evrópu
Ef orkupakkinn verður samþykktur, mun skapast mikill og viðvarandi þrýstingur á að leggja sæstreng. Hann mun vara þangað til sæstrengurinn kemur, því orkuverð á hinum endanum er mun hærra en hér. Landsvirkjun vill gjarnan „auka verðmæti orkulindarinnar“, mjög erfitt hlutverk nema með því að hækka rafmagnið. Gegnum sæstreng getur hún selt allt sem hún vill fyrir gott verð, ef hún á mikið vatn í lónum þegar vorleysing byrjar á hálendinu, þá er það vatn tapað fé, því skyldi hún tapa þannig? Á henni hvílir engin skylda til að eiga vatn í lónum sem grípa má til þegar seint vorar, lög sem skikkuðu Landsvirkjun sem framleiðanda til þrautavara voru afnumin 2003. Og hvernig á þá að borga allan þann arð sem ríkisstjórnin reiknar með í nýstofnaðan þjóðarsjóð ef ekki má nota strenginn?
Orkuöryggið minnkar
Ef svona ástand leiðir til þess að virkjanir standa vatnslausar í einhvern tíma verður orkuskortur. Síðasta dæmi um slíkt er þegar Rarik tæmdi Smyrlabjargalón 1976, Hornafjörður varð rafmagnslaus og fullt af fólki flúði heimili sín. En hvert eiga Reykvíkingar að flýja ef svipuð staða kemur upp hér? Varla til Hornafjarðar? Rafmagnsleysi sem varir eitthvað lengur en nokkra daga er atburður sem ógnar þjóðaröryggi. Hættan á að svona fari er sem betur fer ekki mikil og má nánast engin vera ef orkuöryggi á að vera viðunandi. En orkuöryggi dagsins í dag er ekki viðvarandi, það dalar mjög hratt, nema haldið verði áfram að byggja virkjanir og línur. Og hver treystir sér til að koma því í kring? Það er nánast bannað með lögum um náttúruvernd. Betri undirbúningur er lágmarkskrafa.
Landsvirkjun hefur sinnt sínu hlutverki með prýði og landið haft nóg rafmagn. Auðvitað þarf að koma málum þannig fyrir að Landsvirkjun geti selt orku, bæði til iðnaðar og útlanda án þess að auka hættuna á orkuskorti. Það er lágmarkskrafa að úr þessu verði bætt með viðeigandi lagasetningu áður en tenging inn á uppboðsmarkað ESB kemur til greina. Auk þess er sala á rafmagni inn á uppboðsmarkað ESB samkvæmt reglum ACER í Ljubljana varhugaverð. Þá er verið að yfirgefa þá stefnu að íslenska orku skuli nota til atvinnuuppbyggingar innanlands fyrir fullt og allt. Fórnarlömbin verða almenningur og iðnaðurinn í heild sinni, ekki bara áliðnaðurinn og landbúnaður í gróðurhúsum. Þessar atvinnugreinar lifa ekki án orku á viðráðanlegu verði eftir að Ísland verður framleiðandi hráorku fyrir uppboðsmarkað ESB, hann er ófær um að bjóða innlendum iðnaði orku á viðunandi verði. Skipaðar hafa verið nefndir og skrifaðar skýrslur af minna tilefni en þessu. Það verður að fresta þessu orkupakkamáli svo ríkisstjórnin nái áttum og geti undirbúið málið með fullnægjandi hætti.
[1] http://hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/sjz/rafmagn_til_heimila_og_utflutnings_a_markadi.pdfHöfundur er prófessor. jonaseliassonhi@gmail.com