Fréttavefur ruv.is birti 24. nóvember 2018 viðtal við Bjarna Má Magnússon dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík sem flutti erindi á ráðstefnunni Fullveldi og þjóðaröryggi í Hörpu. Að sögn Bjarna Más var Ísland að nýta fullveldi sitt þegar það gerðist aðili að EES samningnum, en að hans mati skerðist fullveldið ekki þótt athafnafrelsi kunni að gera það. Rúv spurði Bjarna hvers vegna fólk teldi fullveldið skerðast við samning eins og þriðja orkupakkann? Bjarni Már svaraði: „Þetta er svona hugsunarháttur eins og fullveldið sé kaka, svona fullveldiskaka, sem er hægt að sneiða niður í búta og þá bara hverfur fullveldið. Eins og kaka sem fer niður í munn fólks og bara hverfur.“