Sérfræðinefnd Orkunnar okkar boðar til opins blaðamannafundar í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag kl. 15:00. Tilefnið er útgáfa skýrslu um áhrif inngöngu Íslands í Orkusamband Evrópusambandsins sem samin er af átta sérfræðingum sem allir hafa mikla þekkingu og reynslu af ýmsum hliðum efnahagsmála, orkumála og þjóðarréttar.
Helstu efnisatriði skýrslunnar verða kynnt á fundinum ásamt mikilvægustu niðurstöðum skýrsluhöfunda. Í skýrslunni er farið yfir afleiðingar orkulöggjafar ESB á efnahags- og atvinnumál landsins. Þar er líka fjallað um lögfræðileg álitamál ásamt því að upplýsa um stjórnmálalegan þátt innleiðingar þess orkupakka sem til stendur að Alþingi afgreiði um næstu mánaðamót.

Jónas Elíasson, Stefán Arnórsson og Haraldur Ólafsson ritstýrðu verkinu en Erlendur Borgþórsson hafði umsjón með skýrslugerðinni og útgáfunni. Aðalhöfundar efnisins eru:
- Bjarni Jónsson, verkfræðingur
- Elías B. Elíasson, verkfræðingur
- Eyjólfur Ármannsson, lögfræðingur
- Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra
- Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra
- Ragnar Árnason, prófessor
- Sigurbjörn Svavarsson, framkvæmdastjóri
- Stefán Arnórsson, prófessor
- Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri
Heildarniðurstaða skýrsluhöfunda er sú að það sé rökrétt að Alþingi hafni upptöku 3. orkupakka ESB á þeirri forsendu að upptaka orkupakkans í íslensk lög sé skaðleg fyrir íslenska þjóð, efnahag hennar og náttúru. Mjög mikilvægt er að málið verði rækilega kynnt almenningi í fjölmiðlum. Einnig er lagt til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.
Tilefni skýrslunnar er að Alþingi og íslensk þjóð standa nú frammi fyrir því að taka eina þá stærstu ákvörðun í orkumálum sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir í sögu íslenska lýðveldisins. Málið varðar skipan raforkumála í landinu um fyrirsjáanlega framtíð og yfirráð yfir orkulindum þjóðarinnar.
Skýrslan ásamt heimildaskrá, og líka prentvænni og styttri útgáfu hennar, verður gerð aðgengileg hér á vef Orkunnar okkar en samtökin eru útgefendur og ábyrgðarmenn verksins.