Uppgjafarstefna

Viðar Guðjohnsen skrifar í Morgunblaðið 29. mars 2019

Viðar Guðjohnsen

Nú virðist sem forysta Sjálfstæðisflokksins hafi einsett sér að keyra áfram undarlegt samevrópskt reglugerðarfargan á sviði orkumála með innleiðingu á svonefndum þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Innleiðing þriðja orkupakkans gengur þvert á síðustu landsfundarsamþykktir Sjálfstæðisflokksins.

Á landsfund mæta hátt í tvö þúsund kjörnir fulltrúar víðsvegar af landinu og ákveða stjórnmálastefnu flokksins. Vald landsfundar til stefnumörkunar er bundið í lög flokksins og með þessu skipulagi hefur skapast hófleg valddreifing innan flokksins.

Flokksforystan, sem einnig sækir umboð sitt til landsfundar, getur vissulega með vísan í hitt og þetta virt að vettugi landsfundarsamþykktir og hagað sinni stefnu eins og hún vill en við skulum nú samt hafa það alveg á hreinu að slík framganga hefur afleiðingar.

Á landsfundinum árið 2010 ályktaði fundurinn gegn uppgjöf í Icesave deilunni með eftirfarandi samþykkt: „Við [sjálfstæðismenn] segjum hins vegar NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave málinu.“

Hið mikilvæga traust sem ríkir á milli forystu og flokksmanna rofnaði þegar forystan fór á sveig við þá samþykkt. Það má í raun leiða að því líkur að farvegurinn fyrir kosningasigur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar árið 2013 hafi einmitt skapast vegna þess að Sigmundur stóð fast í fæturna í því máli en á sama tíma upplifðu margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins sig sem svikna. Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar fékk 35% fylgi í þremur kjördæmum af sex í þeim kosningum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn náði aðeins yfir 30% fylgi í einu kjördæmi.

Það var salt í sárið að heyra talsmenn forystunnar reyna að telja flokksmönnum trú um að landsfundarsamþykktin hefði verið eitthvað annað en hún var og að ekki væri verið að ganga gegn samþykktinni. Þótt tíminn lækni flest sár situr sú framganga enn í flokksmönnum.

Sagan virðist ætla að endurtaka sig með hinum þriðja orkupakka. Á síðasta landsfundi voru línurnar lagðar með eftirfarandi samþykkt: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“ Samþykktinni var beint gegn þriðja orkupakkanum. Þeir sem halda því fram að þessi samþykkt hafi verið sett fram af einhverju handahófi og tengist ekki þriðja orkupakkanum skulu skýra sitt mál.

Efnislega hafa engin rök verið lögð fram um að þessi þriðji orkupakki sé hagstæður fyrir Íslendinga og margt bendir til að með innleiðingu á honum sé verið að afsala sér valdi yfir málaflokknum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Jafnvel flutningsmenn frumvarpsins hafa í raun viðurkennt valdaframsalið og leggja fram frumvarpið með fyrirvörum. Það er þó alveg á kristaltæru að fyrirvarar hafa litla sem enga þýðingu þegar kemur að dómsvaldinu í Brussel.

Þegar EES-samningurinn var samþykktur var það grundvallaratriði að Íslendingar fengju að halda í innflutningshöft sín á landbúnaðarafurðum sökum þess að búfjárstofnar landsmanna hefðu búið við langvarandi einangrun og væru viðkvæmir fyrir farsóttum. Þetta má m.a. lesa í athugasemdum lagafrumvarpsins.

Þetta grundvallaratriði var nýlega dæmt óheimilt með vísan í flókna og fyrirferðarmikla evrópska lagabálka sem höfðu verið innleiddir. Rétt eins og með þriðja orkupakkann samþykktu ráðamenn einhverja lagaflækju frá Brussel sem endaði svo með einhverju allt öðru en lagt var upp með.

Það má spyrja sig á hvaða vegferð evrópska samstarfið er komið þegar slík grundvallaratriði breytast án þess að löggjafinn geri sér grein fyrir því. Það hlýtur að þurfa að horfa til þess máls við innleiðingu á þriðja orkupakkanum. Erum við að festa í lög eitthvert evrópskt reglugerðarfargan sem getur gert grundvallarbreytingar á hagsmunum þjóðarinnar og vilja löggjafans með dómsúrskurði? Gæti sem dæmi eftir nokkur ár fallið dómur um að ríkið þyrfti að brjóta upp Landsvirkjun og selja hana? Gæti komið upp eitthvað ófyrirsjáanlegt í tengslum við orkuframleiðslu og dreifingu því menn ákváðu að samþykkja einhvern orkupakka sem ekki einu sinni flutningsmenn hans virðast skilja?

Ekki einn einasti stuðningsmaður frumvarpsins hefur stigið fram og lagt fram rök um að pakkinn sé góður. Ekki einu sinni þeir sem styðja pakkann. Bara einhverjar flækjur og uppgjafartal um að þetta þurfi á grundvelli EES samningsins. Notast er við setninguna „við eigum engra kosta völ“. en sama setning var notuð í Icesave-deilunni. Annað kom heldur betur á daginn!

Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.

Deila þessu: