fbpx

Alþingi á síðasta orðið

Spegill RÚV fjallaði þann 27. mars 2018 um ACER, stöðu Noregs og áhrif þess ef Alþingi samþykkir ekki þriðju tilskipunina í orkumálum.

Spegillinn spyr hvað gerist ef Alþingi hafnar þriðja orkupakkanum?  Í fyrsta lagi eru engin fordæmi þess að eitt EFTA-landanna hafni eða neiti að samþykkja tilskipun. Sameiginlega EFTA-nefndin samþykkti í maí í fyrra að innleiða hana en með stjórnskipulegum fyrirvara. Tilskipunin öðlast ekki gildi fyrr en þjóðþing landanna hafa lagt blessun sína yfir hana. En málið er þó ekki svo einfalt því til að hún öðlist gildi þurfa öll löndin þrjú að samþykkja hana. Ef Alþingi segir nei tekur hún hvorki gildi í Noregi né Liechtenstein. 

Í svari frá utanríkisráðuneytinu til Spegilsins kemur fram að ef tilskipuninni verður hafnað hér kunni það líka að hafa áhrif á viðaukann um orkumál í heild sinni. Þriðji orkupakkinn er þriðja gerðin í orkumálum sem EFTA-löndin fjalla nú um. Í ljósi þess að engin fordæmi eru um að EFTA-ríki hafi hafnað tilskipun með þessum hætti sé óljóst hver lagaleg og pólitísk áhrif slíkrar ákvörðunar yrðu. EES-samningurinn kveður skýrt á um að ríkin þrjú verði að tala einum rómi. Ef tilskipun er ekki samþykkt frestast gildistaka hennar til bráðabirgða. Sameiginlega EES-nefndin skal þá leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig svo að draga megi frestunina til baka við fyrsta tækifæri. 

Spegillinn vitnar einnig í svör Bjarna Benediktssonar við spurningum Þorsteins Víglundssonar um málið á Alþingi: „Þegar um svona mál er að ræða á Alþingi síðasta orðið. Það er sá fyrirvari sem menn gera í Evrópusamvinnunni. Þeir hafa ekki heimild að stjórnskipunarlögum til að skuldbinda Ísland við samningaborðið út í Brussel án aðkomu Alþingis,“ og „En engu að síður veltum því samt fyrir okkur. Mér finnst þetta mjög gott mál til að ræða innri markaðsmál í víðara samhengi. Veltum því aðeins fyrir okkur, hvað höfum við með það að gera á innri markaði Evrópu að vera að ræða úti í Brussel um raforkumál sem eru í einangruðu mengi á Íslandi. Hvað höfum við með það að gera að vera að ræða við önnur ríki Evrópusambandsins um raforkumál af eyjunni Íslandi?“ sagði Bjarni. Sjá nánar á ruv.is

Deila þessu: