Í frétt mbl.is þann 20. mars 2018 er fjallað um viðtal norska fréttavefsins Abcnyheter.no við Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins sem segir:
„Miklar áhyggjur eru af regluverki Evrópusambandsins um orkumál á Íslandi. Ekki aðeins í okkar flokki heldur í næstum öllum stjórnmálaflokkunum fyrir utan þá tvo flokka sem styðja inngöngu í Evrópusambandið, sósíaldemókratana og Viðreisn.“
Tilefni viðtalsins er eftirfarandi ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins:
„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins,“ segir meðal annars í ályktuninni sem breið samstaða var um á landsfundi flokksins samkvæmt heimildum mbl.is.
Norski fréttamiðillinn hefur einnig eftir Óla Birni í viðtalinu:
„Miðað við þá vitneskju sem ég hef um málið mun ég aldrei greiða atkvæði með þessum orkumálapakka frá Evrópusambandinu. Hann er hættulegur fyrir sjálfstæðið okkar.“
mbl.is rifjar einnig upp að „Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Evrópusambandið í umræðum á Alþingi í síðasta mánuði fyrir að reyna ítrekað að fá EFTA/EES-ríkin til þess að gangast með beinum hætti undir vald stofnana sambandsins þvert á tveggja stoða kerfi EES-samningsins.“
mbl.is getur einnig mótmæla í Noregi fyrir framan norska Stórþingið í Ósló. En orkumálapakkinn færir völd yfir norskum orkumálum til fyrirhugaðrar orkumálastofnunar Evrópusambandsins.
Að lokum getur mbl.is þess að skoðanakönnun sem birt var á dögunum sýndi að innan við 10% Norðmanna styddu samþykkt orkumálapakkans en rúmur helmingur þeirra væri því andvígur. Til stendur að málið verði tekið fyrir á Stórþinginu á fimmtudag.