Úr leiðara Bændablaðsins 27. janúar 2022
„Hvernig má það vera að við látum það viðgangast að raforka, sem ekki var hægt að selja frá okkar eigin raforkuverum á kostnaðarverði til stórnotenda í garðyrkju, er nú seld með afslætti til braskara sem framleiða enga raforku, hvað þá matvæli?“
Saga gullgerðarmanna er rakin aftur til fornaldar, en þeir kepptust við með kukli sínu að reyna að umbreyta ýmsum efnum í gull. Allt var það þó byggt á gervivísindum og hreinum blekkingum. Þó talað sé um að saga gullgerðarmanna hafi liðið undir lok á nítjándu öld, þá er það líka enn ein blekkingin. Gullgerðarmenn lifa góðu lífi enn þann dag í dag og í þeirra félagsskap eru einstaklingar sem eru í hópi ríkustu manna heims. Þessir nútíma gullgerðarmenn eru þó hættir að telja fólki trú um að þeir breyti grjóti í áþreifanlegt ekta gull, heldur breyta þeir með sjónhverfingum sínum því sem ekkert er í verðmæta verslunarvöru sem engin raunverðmæti eru samt á bak við. Þetta eru snillingar samtímans, sem er víða hampað í fjölmiðlum sem viðskiptaséníum og bjargvættum hagkerfa heimsins. Stundum falla þó rykagnir á hvítflibba þessara viðskiptaofurmenna, en fólk er fljótt að gleyma þegar búið er að skella flibbanum í þvottavél.
Lestu meira