Ása Hlín Benediktsdóttir:
„Ég er á móti þriðja orkupakkanum einfaldlega vegna þess að ég tel að með honum sé verið að færa okkur enn einu skrefinu nær því að selja orku úr landi og rígbinda okkur enn frekar á klafa evrópska reglubáknsins og alþjóðavæðingarinnar. Þriðji orkupakkinn er bara enn ein birtingarmynd þess að við séum að gangast alþjóðavæðingunni á hönd og þá ekki bara sem hugmyndafræði heldur með bindandi samningum.“
„Ég bara trúi því ekki að við ætlum í alvöru að fara að framselja þær auðlindir sem við þó eigum eftir og felast í ósnortinni víðáttu, hreinu vatni og lofti og gjöfulum fiskimiðum fyrir skjótfenginn gróða örfárra einstaklinga á þeim forsendum að annars séum við heimóttalegir rasistar og einangrunar sinnar. Við þurfum miðstýringu þjóðríkisins til þess að hafa hemil á fyrirtækjum sem annars geta, eins og dæmin sýna, vaðið áfram í skjóli þess eftirlitsleysis sem alþjóðavæðingin býður upp á og bókstaflega eyðilagt heiminn.Við ráðum auðvitað ekki yfir öðrum löndum en við getum allavega byrjað á sjálfum okkur með góðu fordæmi. Heimurinn allur sem einn markaður er ekki útópía vinstri mannsins heldur dystópía, hvers öreigar verða ekki ein stétt innan hvers lands heldur heilu löndin eða jafnvel heimsálfurnar.
Það er auðvitað mjög auðvelt að gangast alþjóðavæðingunni á hönd þar sem að hún verður jú til þess að við fáum »nýlenduvörur« og brauðmolana sem hrynja af borði stórfyrirtækjanna og getum í leiðinni flokkað okkur sem víðsýna, mannvini og heimsborgara. Ég vona bara að þeir sem eru fylgjandi þessari ömurlegu stefnu fari að átta sig á því að þeir eru að kjósa gömlu nýlenduherrana, þeir eru hinir sönnu pilsfaldakapítalistar, þeir eru ekki upplýstir og menntaðir heldur blindaðir og heilaþvegnir, þeir eru hinir sönnu rasistar og umhverfissóðar.Segjum nei við öllum orkupökkum, nei við Evrópusambandinu og nei við alþjóðavæðingunni.Munum að vegurinn til glötunar er varðaður góðum ásetningi, þriðji orkupakkinn er ein slík varða.
Nánar í Mbl þ. 21. ágúst 2019