fbpx

Þriðji orkupakki ESB: Virðum þjóðarvilja!

Anna Kolbrún Árnadóttir alþingismaður

Anna Kolbrún Árnadóttir:

“Orkan á að tilheyra Ís-lendingum, engum öðrum, og okkur þingmönnum ber skylda til að standa vörð um hana og afhenda þjóðinni ákvörðunarvaldið. Það er enginn annar en þjóðin sem á að taka ákvörðun um þetta mikilvæga mál.”

“ Í umræðunni um orkupakka þrjú í þinginu í vor kepptist núverandi ríkisstjórn við að koma fram með þá fullyrðingu að orkupakki þrjú skipti litlu sem engu máli fyrir þjóðina í von um að landsmenn myndu bíta á agnið. Það gekk ekki, niðurstöður skoðanakannana og umræður í samfélaginu sýndu að þjóðin hafnaði innleiðingu orkupakka þrjú. Það allra nýjasta er að þingmaður Sjálfstæðisflokksins heitir því að ríkisstjórnir framtíðarinnar muni setja sæstreng í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvort niðurstöðunni úr þeirri atkvæðagreiðslu verður framfylgt eða ekki fylgir ekki sögunni, þó eigum við Íslendingar að hoppa hæð okkar af hamingju yfir þessari fínu smjörklípu sem á að bæta allt það sem er athugavert við orkupakkann. Þá skipti engu máli hækkandi orkuverð komi hér sæstrengur, eða hvort við verðum þvinguð til að skipta Landsvirkjun upp og hvort við verðum neydd til að virkja meira til þess að geta sent hreina orku úr landi. Í reglugerð nr. 2009/72/EB sem tilheyrir orkupakkanum koma m.a. fram þau markmið reglugerðarinnar og í 59. lið stendur eftirfarandi: „Þróun raunverulegs innri markaðar á sviði raforku, með net sem tengt er um allt Bandalagið, skal vera eitt af helstu markmiðum þessarar tilskipunar og stjórnsýsluleg málefni varðandi samtengingar yfir landamæri og svæðisbundna markaði skulu því vera eitt helsta verkefni eftirlitsyfirvalda, í náinni samvinnu við stofnunina eftir því sem við á.“ Nú hefur ríkisstjórnin stundað hinar ýmsu loftfimleikakúnstir, með einhliða fyrirvörum án nokkurs raunverulegs vægis, og núna þjóðaratkvæðagreiðslu um lagningu sæstrengs, en það breytir ekki því að með því að innleiða orkupakkann þá samþykkjum við Íslendingar að vinna að þessum markmiðum sem fram koma í reglugerðunum. Orkustefna Evrópusambandsins er nefnilega ekkert flókin og kemur hún glöggt í ljós við lestur orkupakkans;

Markmiðið er að efla innri markað með orku þar sem samtengingar á milli landa gegna lykilhlutverki. Það er því í besta falli skammsýnt að ætla að ganga inn í þetta samkomulag og sleppa því að tengjast Evrópu.

Að þessu sögðu vil ég þó fagna því að þingmaður Sjálfstæðisflokksins leitist við að finna flöt á orkupakkaumræðunni en þá ætlast ég einnig til þess að þessi sami þingmaður kynni sér málið vel og átti sig á því að það er til lítils að ætla ríkisstjórnum framtíðarinnar að taka ákvörðun. Það verður að ná niðurstöðu núna og fyrsta skrefið í þeirri vegferð er að þjóðin kjósi um hvort orkupakki þrjú verði innleiddur eða ekki og næsta skref er að þingheimur virði þá niðurstöðu sem úr atkvæðagreiðslunni kemur.“

Orkuauðlind okkar Íslendinga er í húfi og með auknum loftslagsvanda og áhuga á grænni orku eykst bara virði hennar. Orkan á að tilheyra Íslendingum, engum öðrum, og okkur þingmönnum ber skylda til að standa vörð um hana og afhenda þjóðinni ákvörðunarvaldið. Það er enginn annar en þjóðin sem á að taka ákvörðun um þetta mikilvæga mál.“

Nánar í Mbl. þ. 23. júlí 2019

Deila þessu: