fbpx

Rökin

Lífskjörin

Ódýr og örugg raforka er undirstaða góðra lífskjara í landinu
Því er afar mikilvægt að allar ákvarðanir sem teknar eru í raforkumálum Íslands þjóni hagsmunum fólksins í landinu og komandi kynslóðum.

Hrein og endurnýjanleg orka er mikilvæg undirstaða velmegunar hér á landi
Það er því mikilvægt að Íslendingar taki sjálfir allar ákvarðanir um nýtingu þessar auðlindar en láti ekki ESB það eftir að taka þær.


Í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar til utanríkisráðuneytisins, 19.03.2019, kemur fram að þriðji orkupakkinn spannar bæði eignarrétt og ráðstöfunarrétt yfir orkulindunum. Þeir líkja völdum ESB yfir orkulindunum á Íslandi við það að ESB fengi ákvörðunarvald yfir aflamarksákvörðun á Íslandsmiðum.

Með innleiðingu kemur raforkumarkaður sem hentar engan vegin Íslandi
Slíkur markaður verður rekinn í orkukauphöll með spákaupmennsku á sviði afleiðuviðskipta sem gagnast varla raforkunotendum. Fákeppnismarkaður verður til að auka gróða orkufyrirtækja á kostnað neytenda; sérstaklega verði lagður sæstrengur til landsins.

Norskur hagfræðingur, Anders Skonhoft, hefur sýnt fram á að vegna mikilla raforkuverðshækkana til heimila og fyrirtækja í Noregi, af völdum sæstrengja, séu þeir þjóðhagslega óhagkvæmir. Þeir sem græða á slíku eru orkuvinnslufyrirtækin og sæstrengseigendur. Í Noregi á ríkið (Statnett) sæstrengina.

Bannað verður að samhæfa stjórnun á nýtingu auðlindarinnar og því eykst  hætta á orkuskorti.

Sjálfstæðið og stjórnarskráin

Núna eru 90% raforkuframleiðslunnar í eigu þjóðarinnar 
Þessa einstöku stöðu þurfum við að verja. Bæði fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar. Það mun torveldast ef við innleiðum þriðja orkupakka ESB því að ætlun ESB með honum, og hinum orkupökkunum, er að auka markaðsvæðingu og samtengingu raforkukerfa á EES-svæðinu.

Orkupakkar ESB skerða fullveldi Íslands í orkumálum 
Með samþykkt orkupakka 3 kemur löggjöf sem hvorki hentar aðstæðum á Íslandi né hagsmunum Íslands. Hluti ríkisvalds og dómsvalds í orkumálum flyst úr landi. Verjum sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar í orkumálum.

Stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal valds til erlendra stofnana
Þriðji orkulagabálkur ESB mælir fyrir um að hér sé starfrækt embætti (landsreglari) sem taki ákvarðanir um orkumál Íslands. Embættið heyrir hvorki undir ríkisstjórn né Alþingi en fer eftir reglum og ákvörðunum ESB.


Þótt embættið sé starfrækt á Íslandi er það í reynd algerlega háð erlendu valdi, ESA/ACER, en á íslenskum fjárlögum. Íslendingar þurfa að borga gjald til ACER (Orkustofnunar ESB).

Það er okkar réttur að afþakka erlent vald í orkumálum 
Ísland er ótengt raforkumarkaði ESB og því á Ísland að gera skýlausa kröfu um undanþágu frá löggjöf um raforkumarkað ESB. Fordæmi eru í EES-samningnum fyrir slíkum undanþágum Íslands varðandi jarðgas, skipaskurði, járnbrautir o.fl. Neitunarvald Alþingis var líklega undirstaða þess að EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi árið 1993.

Ólíkar aðstæður

Ísland er ótengt orkumarkaði ESB og því engin ástæða til að innleiða hér orkulöggjöf ESB
ESB getur ekki gert tilkall til þess að setja okkur reglur um orkunotkun, rekstur og viðhald raforkukerfisins þar sem Ísland er ótengt raforkumarkaði ESB.

Orkulöggjöf ESB miðast við aðstæður sem eru gjörólíkar okkar
Ólíkt stærstu aðildarríkjum ESB er Ísland auðugt af hreinni endurnýjanlegri orku. Við kyndum húsin okkar með jarðvarma en ekki olíu og gasi eins og algengast er í ESB. Raforka er ódýrari hér en í flestum löndum ESB. Við getum ekki treyst því að ESB ríkin setji reglur sem henta okkar aðstæðum.

Íslendingar hafa engan hag af því að innleiða orkulöggjöf ESB
Því hefur reyndar verið haldið fram að orkulöggjöfin verndi almenna neytendur en það á ekki við hér á landi. Ólíkt ESB eru helstu orkufyrirtæki Íslands í þjóðareigu og hafa það hlutverk að þjóna almenningi.


Í ESB er hins vegar búið að markaðsvæða orkuviðskipti til fulls og þar er því þörf á að verja neytendur gegn gróðasæknum orkufyrirtækjum. Orkulöggjöf ESB á því ekkert erindi til íslenskra neytenda. Staða neytenda myndi versna umtalsvert við markaðsvæðingu í anda ESB vegna sveiflukenndara verðs og fákeppni sem líklegt er að leiða myndi til hærra meðalverðs.

Sæstrengur

Verði orkulagabálkurinn innleiddur á Íslands aukast líkur á sæstreng
Sæstrengur til Íslands er nú þegar á lista yfir forgangsverkefni ESB á sviði millilandatenginga. Þótt ríkisstjórnin hafi óskað eftir því að „Ice-Link“ færi út af þeim lista er hún aðeins einn af mörgum umsagnaraðilum en ESB tekur hina endanlegu ákvörðun. Listinn er endurskoðaður á tveggja ára fresti og strengurinn getur farið aftur inn þótt hann verði tekinn út um stundarsakir.

ACER (The EU Agency for the Cooperation of Energy Regulatorsmun skera úr um hvort umsóknir um sæstreng til Íslands verði samþykktar. Hvorki íslensk stjórnvöld né Alþingi munu geta staðið gegn slíkri framkvæmd. Meðal annars þess vegna telja lögfræðingarnir, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, í álitsgerð sinni til utanríkisráðuneytisins að reglugerð 713/2009 samrýmist ekki stjórnarskrá Íslands.

Sæstrengur til ESB myndi stórauka ásókn í virkjun fossa, jarðhita og vindorku
Með sæstreng mun orkuverð hækka umtalsvert ef marka má reynslu Norðmanna en þar er flutningsgeta allra sæstrengja minni, sem hlutfall af almennum markaði, en verður hérlendis vegna eins sæstrengs. Hærra orkuverð mun gera mörgum, í atvinnurekstri hérlendis, mjög erfitt fyrir.

Þekkingarsetur norsku verkalýðshreyfingarinnar, De Facto, áætlar að afleiðingar þriðja orkupakkans í Noregi verði m.a. þær að 30.000 starfa glatist. Það gæti þýtt 8.000 störf hérlendis með afleiddum störfum miðað við raforkunotkun iðnaðarins í báðum löndum og sæstrengslögn til Íslands.

Hætt er við að sjónarmið um náttúruvernd verði undir í þeirri baráttu en í ESB eru hagsmunir atvinnuveganna oft látnir ganga fyrir náttúruvernd.

Komi sæstrengur mun Ísland bera kostnaðinn af lagningu raflína frá orkuverum landsins að sæstreng svo og kostnaðinn af byggingu tengivirkja innanlands
Samkvæmt reglum ESB verður Landsnet að kosta línulagnir frá virkjunum og að sæstreng. Sá kostnaður mun valda hækkun á gjaldskrá Landsnets hjá innlendum raforkunotendum.

Bili sæstrengur mun íslenskt samfélag hugsanlega bera hluta tjónsins sem gæti orðið mikið
Þegar sæstrengir bila á miklu dýpi getur tekið marga mánuði að ljúka viðgerð. Strengur gæti bilað á versta tíma. Á meðan á viðgerð stendur kæmu engar tekjur af orkuframleiðslu enda tekur langan tíma að byggja upp iðnað sem nýtir orkuna innanlands.

Áformað er að strengur muni rúma um 20-40% af orkuframleiðslu Íslands en enginn er reiðubúinn til að tryggja þjóðarbúið gegn áföllum af þeirri stærðargráðu sem bilun sæstrengs myndi valda.

Sæstrengur til ESB myndi auka enn frekar hættu á orkuþurrð
Takmarkarnir á útflutningi rafmagns eru bannaðar samkvæmt EES- samningnum. Af því leiðir að staða í lónum getur orðið hættulega lág fyrir afhendingaröryggi raforku á Íslandi.

Verði orka flutt út um sæstreng munu störf flytjast úr landi
Ódýr orka er ein af forsendum öflugs hagvaxtar og nýsköpunar hér á landi. Verði orkan flutt úr landi munu störfin einnig hverfa úr landinu og atvinnugreinum, eins og ylrækt, verða ógnað. Hækkun raforkuverðs leiðir óhjákvæmilega til fækkunar atvinnutækifæra í landinu.

Síðast en ekki síst

Innleiðing á orkubálki ESB stuðlar að einkavæðingu orkufyrirtækja í þjóðareigu
Með orkumarkaðslagabálk ESB taka ákvæði fjórfrelsis EES- markaðarins gildi.  Verði orkufyrirtæki eða hlutar úr þeim til sölu, t.d. vegna úrskurðar ESA um ójafna markaðsstöðu orkubirgjanna, þá koma erlendir kaupendur innan EES jafnt til greina sem innlendir.

Landsvirkjun hefur nú markaðsráðandi stöðu. Ef ESA gerir athugasemd við þetta kann svo að fara að Landsvirkjun verði skipt upp og hlutar einkavæddir til fjárfesta á EES svæðinu.

Ísland er í fullum rétti til að hafna ESB löggjöf
Alþingi getur neitað að innleiða ESB löggjöf sem talin er andstæð íslenskum hagsmunum. Löggjöfin verður þá ekki tekin upp í EES-samninginn en þá geta Noregur og Liechtenstein gert tvíhliða samninga við ESB um að löggjöfin taki gildi í þeim ríkjum ef þau vilja.

Deila þessu: